Dagný með sigurmark Íslands

Dagný Algarve 2014
Dagný Algarve 2014

Kvennalandsliðið vann sanngjarnan sigur á Ísrael í gær í undankeppn HM en leikið var á Ramat Gan vellinum. Lokatölur urðu 1- 0 fyrir okkar stúlkum eftir að markalaust hafði verið í leikhléi. Dagný Brynjarsdóttir var í byrjunarliði Íslendinga er Guðmunda Brynja Óladóttir var ekki í leikmannahópi liðsins að þessu sinni.

Íslenska liðið stjórnaði leiknum frá upphafi, eins og búist hafði verið við, en heimastúlkur lágu vel til baka. Stelpurnar sköpuðu sér þó ein þrjú dauðafæri í fyrri hálfleiknum auk þess sem þær áttu lofandi sóknir. Það var þó markalaust þegar pólski dómarinn flautaði til leikhlés.

Síðari hálfleikur þróaðist á sama hátt og sá fyrri þar sem íslenska liðið réð ferðinni. Einar mark leiksins kom eftir klukkutíma leik. Fanndís Friðriksdóttir gerði vel þegar hún fór upp hægri kantinn og sendi fyrir markið en varnarmenn heimastúlkna komust fyrir. Fanndís vann þó boltann aftur af harðfylgni, lék inn í teig og lagði boltann á Dagnýju Brynjarsdóttur sem skoraði úr miðjum teignum. Eftir markið kom ákveðin ró yfir leikinn, ísraelska liðið færði sig framar á völlinn en olli íslensku vörninni engum vandræðum. Sara Björk Gunnarsdóttir átti ágætan skalla sem markvörðurinn varði og á loka andartökum leiksins skallaði Dagný í þverslána eftir góðan undirbúning frá Fanndísi. Örstuttu síðar var flautað til leiksloka og íslenska liðið fagnaði sigri sem krafðist mikillar þolinmæði hjá íslenska liðinu.

Næsti leikur liðsins er svo á fimmtudaginn þegar leikið verður gegn Möltu í Valetta. Malta tapaði stórt fyrir Sviss í dag, 11 - 0 en þær svissnesku eru með fullt hús stiga eftir fimm leiki í efsta sæti riðilsins. Ísland er svo í öðru sæti með sex stig eins og Ísrael.

Frétt af heimasíðu KSÍ.