Stig í pokann á erfiðum útivelli í krefjandi aðstæðum

Byrjunarlið gærdagsins
Byrjunarlið gærdagsins

Það blés ekki byrlega í Njarðvík í gærkvöldi þegar heimamenn tóku á móti Selfyssingum í 6. umferð Lengjudeildarinnar. Mikið rigndi allan leikinn og vindurinn gerði mönnum ekki auðveldara fyrir. 

Leikurinn byrjaði rólega og það tók bersýnilega nokkra stund fyrir leikmenn inni á vellinum að aðlagast aðstæðum. Selfyssingar áttu þó fyrsta höggið en það var Guðmundur Tyrfingsson sem setti boltann í netið af stuttu færi eftir að skot Gary Martin var varið út í teig. Okkar menn fengu nokkur afar góð færi til þess að bæta við forystuna en inn vildi boltinn ekki. 0-1 í hálfleik. 

Selfyssingar komu vel gíraðir út í síðari hálfleik og héldu áfram að þjarma að marki Njarðvíkur og náðu að skapa sér mjög góðar stöður. Heimamenn tóku síðan við sér og héldu boltanum vel og sóttu að marki Selfyssinga síðustu mínúturnar. Það skilaði jöfnunarmarki á 85. mínútu. Liðin fengu síðan nokkur færi hvort síðustu mínúturnar en sigurmarkið kom ekki. Lokatölur, 1-1.

Guðmundur Tyrfingsson var valinn maður leiksins á Fótbolti.net. 

„Við köstuðum tveim stigum frá okkur fannst mér. Við áttum nokkur mjög góð færi í þessum leik. Við sáum í seinni hálfleik þegar við tókum boltann niður og spiluðum og náðum að búa til nokkur góð færi út úr því en það vantaði bara end product eða síðustu sendinguna eins og gerist í fótbolta,"  sagði Dean Martin í viðtali hjá Fótbolti.net eftir leikinn í gær. 

Selfoss situr í 4. sæti deildarinnar með 10 stig. Næsti leikur liðsins er á Akureyri gegn Þór, föstudaginn 16.júní klukkan 18:00.