Fengu öll verðlaun á EM!

landslids
landslids

Selfoss átti átta fulltrúa í landsliðum Íslands sem kepptu á Evrópmótinu í hópfimleikum sem fram fór í Slóveníu um síðustu helgi.

Þær Aníta Sól Tyrfingsdóttir og Júlíana Hjaltadóttir urðu Evrópumeistarar með stúlknaliðinu sem átti frábæran dag en þær fengu hæstu einkunn bæði í dansi og á trampólíni.

Eva Grímsdóttir var fulltrúi Selfoss í kvennaliðinu sem eftir harða baráttu endaði í öðru sæti tæplega 0,3 frá gullinu.

Hekla Björt Birkisdóttir keppti með blönduðu liði unglinga sem stóð sig frábærlega og enduðu í þriðja sæti á eftir sterkum liðum Danmerkur og Noregs.

Í blönduðu liði fullorðinna átti Selfoss fjóra fulltrúa þau Margréti Lúðvígsdóttur, Eystein Mána Oddsson, Konráð Oddgeir Jóhannsson og Rikharð Atla Oddsson þau áttu frábæran dag og hækkuðu sig um tvö sæti frá því úr undanúrslitunum og nældu sér í bronsverðlaun.

Þetta öfluga íþróttafólk hefur æft fimleika frá barnsaldri og lagt mjög hart að sér við æfingar. Undirbúningur landsliða undir Evrópumótið hefur staðið í tíu mánuði og hafa þau æft mjög stíft með landsliðunum síðustu sex mánuði í allt að 20 tíma á viku.

Einnig er fjallað um árangur landsliðsfólksins okkar og móttökuna á vef Sunnlenska.is.

Það er mjög ánægjulegt að sjá að þrotlausar æfingar hafa skilað þessum frábæra árangri og ekki á hverjum degi sem Umf. Selfoss á fulltrúa á verðlaunapöllum á Evrópumóti.