Fimm framtíðarleikmenn semja við Selfoss

Knattspyrnudeild Selfoss hefur samið við fimm unga og efnilega leikmenn út keppnistímabilið 2024. Þetta eru þær Brynja Líf Jónsdóttir, Auður Helga Halldórsdóttir, Katrín Ágústsdóttir, Embla Dís Gunnarsdóttir og Jóhanna Elín Halldórsdóttir.
 
Allar hafa þær farið í gegnum yngri flokka starf Selfoss og hafa síðustu misserin verið að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokknum.
 
Brynja Líf er 18 ára og spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik í lokaumferð Pepsi-deildarinnar 2019. Hún hefur síðan þá spilað 25 leiki fyrir Selfoss og skorað í þeim 1 mark en Brynja spilar oftast sem miðju- eða varnarmaður.
 
Sóknarmaðurinn Auður Helga, sem er 17 ára, er fyrrum landsliðskona í fimleikum en hefur nú sett fótboltann í fyrsta sæti og spilaði sína fyrstu leiki í efstu deild á þessu tímabili. Hún hefur spilað 18 meistaraflokksleiki fyrir Selfoss, þar af 12 í efstu deild í sumar.
 
Katrín er 17 ára og hefur verið í leikmannahópi meistaraflokks frá 15 ára aldri. Þessi kraftmikli sóknarmaður er leikreyndust ef þeim fimmmenningunum, hefur spilað 35 meistaraflokksleiki, þar af 21 í efstu deild.
 
Embla Dís, sem er 17 ára, spilaði sína fyrstu meistaraflokksleiki í sumar. Embla Dís nýtur sín best á miðjunni og er öflugur skotmaður en hún skoraði sitt fyrsta mark í meistaraflokki í sigri á Aftureldingu í Mjólkurbikarnum fyrr í sumar.
 
Jóhanna Elín er 16 ára sóknarmaður og hefur verið í leikmannahópi meistaraflokks frá því síðasta vetur. Hún spilaði sína fyrstu leiki í efstu deild núna í ágúst og hefur komið af krafti inn í liðið síðustu vikurnar.
 
„Við erum ótrúlega ánægð með að geta sýnt þessum uppöldu, sunnlensku stelpum það að við höfum trú á þeim, með því að tryggja okkur veru þeirra hér næstu ár. Það er mikill efniviður sem kemur í gegnum unglingastarf Umf. Selfoss og nágrannafélaganna,“ segir Björn Sigurbjörnsson, þjálfari kvennaliðs Selfoss.
„Til þess að geta haldið félaginu stöðugu þurfum við að vera dugleg að lyfta þessum ungu efnilegu leikmönnum upp í meistaraflokkana. Þessir ungu leikmenn hafa allar komið við sögu í leikjum meistaraflokks kvenna í sumar og staðið sig með prýði og munu vonandi halda áfram að stíga næstu skref á sínum ferlum hjá okkur,“ segir Björn ennfremur.