Fimm frjálsíþróttamenn HSK/Selfoss á Reykjavíkurleikunum

Reykjavíkurleikarnir eða Reykjavík International Games fóru fram um liðna helgi, laugardaginn 21. janúar. sl. í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. Þetta er boðsmót þar sem aðeins þeim sem hafa náð tilskildum árngri er boðið að taka þátt. Flest besta frjálsíþróttafólk landsins var mætt til leiks ásamt átta erlendum keppendur frá Svíþjóð, Danmörku, Hollandi, Englandi og Togo. Frá HSK/Selfoss var níu keppendum boðið til keppni. Árangurinn lofar góðu fyrir komandi innanhússkeppnistímabil. Uppskeran silfur, tvö brons og persónulegar bætingar.

Kristinn Þór Kristinsson Samhygð keppti í 800 m hlaup og náði sínum besta tíma á árinu, 1:56,56 mín, sem er góður tími.Kiddi var ekki langt á eftir silfur- og gullverðlaunahöfunum í hlaupinu, þeim Birni Margeirssyni UMSS og Snorra Sigurðssyni ÍR.

Hreinn Heiðar Jóhannsson Laugdælum keppti í tveimur greinum. Hann bætti sig hressilega í 60 m grindahlaupi er hann kom þriðji í mark á 9,26 sek, en hann átti áður 9,65 sek. Hreinn stökk svo sitt besta langstökk sem af er ári er hann sveif 6,16 m og varð í 5 sæti.

Sólveig Helga Guðjónsdóttir spretthlaupari frá Selfossi varð önnur í 60 m hlaupi er hún kom í mark á 8,47 sek sem er besti tími ársins hjá henni, var búinn að hlaupa á 8,54 sek áður.

Haraldur Einarsson spretthlaupari úr Vöku er að komast í gott form. Hann keppti í 60 m hlaupi og kom 4. í mark á besta tíma sínum á árinu 7,19 sek, aðeins 8 brotum frá hans persónulega meti.  

Ólafur Guðmundsson Laugdælum var skráður til leiks í 60 m grindahlaup en varð að hætta keppni vegna meiðsla. Eva Lind Elíasdóttir Þór og Teitur Örn Einarsson Selfossi voru einnig skráð til leiks, en vegna mistaka misstu þau af keppninni. Fjóla Signý Hannesdóttir Selfossi og Agnes Erlingsdóttir Laugdælum áttu að keppa á þessu móti en þar sem þær er við nám og æfingar erlendis sáu þær sér ekki fært að koma að þessu sinni.

Frjálsíþróttaviðburðir á næstunni:
Nóg er um að vera á næstunni í frjálsíþróttaheiminum á Íslandi. Meistaramótin í öllum aldursflokkum og Bikarkepnni FRÍ ásamt Stórmóti ÍR eru á dagskrá næstu fimm helgar í Frjálsíþróttahöllinni í Laugardal. 
Um næstu helgi 28.-29. febrúar fer fram fjölmennasta frjálsíþróttamót landsins, Stórmót ÍR. 
Helgina 4.-5. febrúar verður Unglingameistarmóti 15-22 ára. 
Helgina þar á eftir, 11.-12. febrúar fer fram MÍ aðalhluti og viku síðar, laugardaginn 18. febrúar verður svo Bikarkeppni FRÍ haldin. Sællar minningar kom HSK-liðið á óvart í fyrra er það varð í þriðja sæti í stigakeppni félaga, með jafnmörg stig og silfurlið Norðlendinga.
Síðasta Meistaramótið er svo í yngstu flokkunum 11-14 ára,  25.-26. febrúar. 
HSK/Selfoss sendir öflug lið á öll þessi mót. Innahústímabilið endar svo helgina 3.-4. mars þegar Héraðsleikar 10 ára og yngri fara fram á laugardeginum á Hvolsvelli og svo Héraðsmót fullorðinna á sunnudeginum í Laugardalshöllinni. E
ru hér með allir iðkendur í frjálsum á HSK svæðinu, á hvaða aldri sem þeir eru, hvattir til að æfa vel með það að markmiði að keppa á Meistarmóti Íslands.

Ólafur Guðmundsson, verkefnisstjóri HSK í frjálsum