Fimm sigurleikir í röð - Tokic með þrennu

70021775_1335573786605669_5749051499380473856_o
70021775_1335573786605669_5749051499380473856_o

Strákarnir okkar gerðu góða ferð í Vogana á sunnudaginn þar sem að liðið mætti heimamönnum í Þrótti Vogum í 2. deild karla. Lokatölur á Vogaídýfuvellinum, 1-4.

Það tók smá stund fyrir okkar menn að finna taktinn í dag. Heimamenn komust yfir strax á fjórðu mínútu leiksins. Selfyssingar sköpuðu sér færi en náðu ekki að nýta þau. Rétt fyrir hálfleik fékk Selfoss aukaspyrnu úti á miðjum velli, Þór Llorens Þórðarsson teiknaði þá boltann beint á kollinn á Kenan Turudija sem skallaði boltann í netið, 1-1 og þannig var staðan í hálfleik.

Það var í raun aldrei spurning hvar sigurinn myndi enda þegar komið var út í síðari hálfleik. Okkar menn tóku öll völd á vellinum. Hrvoje Tokić kom Selfyssingum yfir á 49. mínútu þegar hann skallaði fyrirgjöf Arnars Loga í netið. Tokic rétt að byrja.

Þriðja mark Selfyssinga kom á 70. mínútu eftir frábært samspil. Kenan lagði boltann þá á Tokic sem að kláraði vel framhjá markverði heimamanna. Tokic fullkomnaði þrennu sína á 78. mínútu með marki úr vítaspyrnu eftir að brotið hafði verið á Ingva Rafni.

Lokatölur í Vogunum, 1-4. Þetta þýðir það að við erum á lífi í toppbaráttunni þegar tveir leikir eru eftir. Við leikum okkar síðasta heimaleik næsta laugardag þegar Völsungur kemur í heimsókn. Við hvetjum Selfyssinga til þess að fjölmenna á þann leik, styðjum strákana til sigurs í síðasta heimaleiknum!