Fjögur silfur og eitt brons á Íslandsmóti unglinga í hópfimleikum

Selfoss átti tíu lið á Íslandsmóti unglinga í hópfimleikum sem fram fór á Selfossi 11. og 12 febrúar sl. Keppt var í fimm flokkum á mótinu.

Í 5. flokki landsreglna átti Selfoss fjögur af sextán liðum. Flokkurinn samanstendur af liðum á aldrinum 9-12 ára. Öll Selfossliðin stóðu sig með glæsibrag og báru af í æfingum á gólfi. Selfoss HL5 varð í 2. sæti með 21,45 stig, Selfoss HL6 varð í 4. sæti með 21,05 stig, Selfoss HL8 í 8. sæti með 18,75 stig og Selfoss HL7 í 11. sæti með 15,65 stig. Vert er að taka fram að þrjú Selfosslið röðuðu sér í efstu þrjú sætin í dansi.

Í 4. flokki landsreglna sem samanstendur af liðum á aldrinum 12-14 ára átti Selfoss tvö af sextán liðum. Keppnin var mjög jöfn og munaði ekki nema 0,25 stigum á 1. og 2. Selfoss HL4 varð í 2. sæti á eftir liði Gerplu. Selfoss HL4 skoraði samtals 22,60 stig, en lið Selfoss HL2 náði 4. sætinu með samtals 20,65 stig. Lið Selfoss HL4 sigraði æfingar á dýnu og dansi. Aðeins trampólínið skildi að. 
Í 4. flokki karlaliða keppti strákalið Selfoss, en þeir enduðu í 3. sæti. Þeir náðu 2. sæti á trampólíni, en 3. sæti á dýnu og í dansi. Samtals fengu þeir 12,90 stig. Þeir stóðu sig mjög vel og munu vonandi halda áfram á þessari braut.

Í 3. flokki landsreglna sem er aldurinn 15-18 ára átti Selfoss eitt lið, Selfoss HL1. Þær stóðu sig mjög vel og sigruðu gólfæfingar, en enduðu samanlagt með 21,45 stig og 2. sætið á eftir liði Akureyringa. Þessar stúlkur áttu ekki sinn besta dag og eiga fullt inni. Þær munu mæta grimmar til leiks á vormótið í maí og freista þess að hampa deildarmeistaratitlinum í 3. flokki.

Í 2. flokki Evrópureglna 11-15 ára átti Selfoss ekki lið, en þar hampaði Stjarnan gullinu.

Í 1. flokki Evrópureglna sem er aldurinn 13-18 ára átti Selfoss eitt lið í kvennaflokki og eitt lið í mixflokki. Undir var að ná sæti á Norðurlandamóti juniora í apríl. Fyrirfram var vitað að keppnin yrði mjög hörð. Kvennalið Selfoss mætti mjög vel undirbúið til leiks og byrjaði keppnina á dýnu. Þær tóku dýnuna með glæsibrag og urðu Íslandsmeistarar á dýnu með 15,65 stig. Á trampólíni gekk ekki alveg allt upp. Þær kláruðu þó sitt og enduðu í 3. sæti með 13,9 stig. Síðasta áhaldið var gólfæfingar þar sem þær hafa staðið sig mjög vel. Eitthvað voru dómararnir ekki sáttir og þær fengu einkunn langt undir getu eða 14,1 stig og 2. sætið. Samtals enduðu þær því í 3. sæti og misstu af sæti sínu á NMJ í apríl. Eftir tvær umferðir voru Selfoss-stúlkur efstar en keppnin var það jöfn að Selfoss, Gerpla og Stjarnan skiptu sætunum þremur á milli sín á milli allra áhalda. Svo fór að Stjarnan hampaði Íslandsmeistaratitli unglinga og Gerpla varð í 2. sæti.

Í flokki blandaðra liða voru aðeins tvö lið mætt til keppni, en það var Selfoss mix og Gerpla mix. Lið Selfoss er mjög ungt en jafnframt efnilegt og þurftu þau að uppfylla kröfur til að eiga möguleika á sæti á NMJ. Liðið stóð sig ágætlega þrátt fyrir að vera mjög brothætt. Þau urðu í 1. sæti á dýnu en 2. sæti á trampolínni og gólfi. Liðið fékk þátt-tökurétt á NMJ en ákveðið hefur verið að þiggja ekki plássið þar sem liðið er ekki tilbúið í svo stórt mót sökum lítillar breiddar og lágs aldurs. Þau munu án efa koma sterkari til leiks og reynslunni ríkari eftir tvö ár.

Alls tóku rúmlega 600 börn þátt á mótinu sem þótti vel til takast í alla staði. Fimleikadeildin vill koma á framfæri þökkum til þeirra fjölmörgu sem gerðu mótið að veruleika og aðstoð-uðu við framkvæmd þess á einn eða annan hátt.