Fjölskyldan á fjallið - Ingólfsfjall

Fjolskyldan a fjallid
Fjolskyldan a fjallid

Héraðssambandið Skarphéðinn stendur í sumar fyrir sérstöku gönguverkefni undir nafninu Fjölskyldan á fjallið og hófst það 22. maí sl. Verkefnið er unnið í samvinnu við Dagskrána sem birtir vikulega upplýsingar um fjall vikunnar og flytur fréttir af verkefninu. Intersport er stuðningsaðili verkefnisins og gefur vinninga í formi vöruúttekta sem dregnar verða út í haust þegar verkefninu lýkur.

Tilgangur verkefnisins er að hvetja fjölskyldur til að fara saman í léttar gönguferðir á fjöll á sambandssvæði HSK og vekja um leið athygli á almenningsíþróttaverkefnum HSK og UMFÍ og gildi útiveru og hreyfingar ásamt samveru fjölskyldunnar.

Gönguverkefnið er þannig hugsað að í hverri viku í sumar er tilnefnt fjall vikunnar og fjölskyldur hvattar til að ganga saman á fjallið. Fyrsta fjallið var Fagrafell sem er skammt fyrir vestan Gljúfrabúa og Seljalandsfoss. Síðan verður tilnefnt nýtt fjall í hverri viku fram í byrjun september. Fjölskyldur geta farið inn á heimasíðu HSK og sótt sérstakt þátttökublað þar sem skráð er niður nöfn fjölskyldumeðlima eða einstaklinga og merkt við hvenær gengið var á viðkomandi fjall. Ekki þarf endilega að ganga á fjöllin í þeirri röð sem þau eru kynnt. Þátttökublöðum má síðan skila á skrifstofu HSK, í Selinu á Selfossi, fyrir 15. september. Í haust verða dregnir út vinningshafar sem fá vöruúttektir hjá Intersport.

Göngufólk er hvatt til að senda  skemmtilegar myndir og kannski stuttan pistil úr göngunni. Vinsamlegast sendið í netfangið orng@prentmet.is eða á hsk@hsk.is.

Fjall vikunnar er Ingólfsfjall (3. júlí)

Hægt er að ganga á Ingólfsfjall frá nokkrum stöðum, t.d. frá Alviðru, en þaðan er merkt um 2 klst. gönguleið á fjallið. Við upphaf göngu í Alviðru  er upplýsingaskilti um leiðina á fjallið. Alviðra stendur undir Ingólfsfjalli við Sog,  gengt Þrastarlundi í Grímsnesi. Einnig er hægt að hefja göngu á Ingólfsfjall að sunnanverðu, austan við Þórustaðanámu eða þá að norðanverðu.

Ingólfsfjall í Ölfusi er einkum gert úr móbergi með hraunlögum inn á milli og er 551 m yfir sjávarmáli. Fjallið er kennt við landnámsmanninn Ingólf Arnarson. Upp á fjallinu er grágrýtishæð sem heitir Inghóll og segja munnmæli að þar sé Ingólfur heygður. Það er hömrum girt að mestu nema að norðanverðu, þar eru aflíðandi brekkur upp að fara. Að ofan er fjallið flatt. Það er um 5 km frá vestri til austurs en um 7 km frá norðri til suðurs. Af Ingólfsfjalli blasir við meginhluti Grafningsins og Sogið allt frá Úlfljótsvatni að mótum Hvítár. Austan við Sogið er Grímsnesið og þar eru Seyðishólar, Tjarnhólar og Kerið sem eru fornar eldstöðvar og blasa við augum.