Fjórir einstaklingar sæmdir silfurmerki Selfoss

frjalsar-adalfundur-silfurhafar
frjalsar-adalfundur-silfurhafar

Aðalfundur frjálsíþróttadeildar Umf. Selfoss fór fram í félagsheimilinu Tíbrá í gær. Á fundinum var sitjandi stjórn öll endurkjörin en hana skipa Helgi Sigurður Haraldsson formaður, Svanhildur Bjarnadóttir gjaldkeri og Þuríður Ingvarsdóttir ritari ásamt meðstjórnendunum Dýrfinnu Sigurjónsdóttur, Helgu Sigurðardóttur, Höllu Baldursdóttur og Thelmu Björk Einarsdóttur sem jafnframt er fulltrúi iðkenda 16-25 ára.

Í skýrslu stjórnar kom fram að árið 2016 var glæsilegt starfsár hjá deildinni, bæði innan vallar sem utan. Iðkendum fjölgar enn á milli ára í öllum aldursflokkum. Meistaraflokkurinn stækkaði verulega og hefur hann ekki verið fjölmennari í mörg ár. Frjálsíþróttaakademían við FSu styrkir sig enn í sessi og styður við starf deildarinnar.

Af einstökum afrekum vekur árangur 11-14 ára aldurshópsins mesta athygli en þau sigruðu annað árið í röð bæði á Meistaramóti Íslands innanhúss og utan undir merkjum HSK/Selfoss.

Rekstur deildarinnar er áfram í góðum málum og afkoman góð sem gefur möguleika á enn frekari þjónustu við iðkendur og þjálfara.

Að lokum kom fram hversu ánægjulegt er að sjá aukinn áhuga foreldra og forráðamanna á að mæta á mót og aðra viðburði til að fylgjast með börnum sínum. Það skiptir þau miklu máli að finna fyrir áhuga foreldra sem styðja við iðkendur í blíðu og stríðu. Jafnframt eru foreldrar duglegir að hjálpa til við fjáraflanir og mótahald deildarinnar.

Á aðalfundinum voru Ágústa Tryggvadóttir, Ingibjörg Jóhannesdóttir, Rúnar Hjálmarsson og Sólveig Guðjónsson sæmd silfurmerki Umf. Selfoss fyrir afar fórnfúst starf fyrir deildina. Það var Guðmundur Kr. Jónsson formaður félagsins og heiðursfélagi frjálsíþróttadeildarinnar sem afhenti merkin.

Að lokum voru veittar viðurkenningar til iðkenda. Í flokki 7 ára og yngri hlaut Bryndís Embla Einarsdóttir viðurkenningu fyrir ástundum sem og Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir í flokki 8-10 ára. Í flokki 14 ára og yngri hlutu Unnur María Ingvarsdóttir og Jónas Grétarsson framfarabikar en afreksfólk 14 ára og yngri voru Hildur Helga Einarsdóttir og Hákon Birkir Grétarsson. Framfarabikar deildarinnar hlutu Harpa Svansdóttir og Helga Margrét Óskarsdóttir. Afreksmaður deildarinnar árið 2016 er landsliðsmaðurinn Kristinn Þór Kristinsson, konungur millivegalengdahlaupanna á Íslandi í dag.

---

Á mynd með frétt: Silfurmerkjahafarnir f.v. Ágústa, Ingibjörg, Rúnar og Sólveig ásamt Guðmundi Kr. Jónssyni, formanni Umf. Selfoss og heiðursfélaga frjálsíþróttadeildarinnar, sem afhenti merkin.
Mynd fyrir neðan: Verðlaunahafarnir f.v. Helga Margrét, Bryndís Embla, Jónas, Hákon Birkir, Dýrleif Nanna og Harpa.
Ljósmyndir: Umf. Selfoss/Gissur

frjalsar-adalfundur-vidurkenningar