Frábær sigur hjá 3. flokki í Mýrinni

Selfoss_merki_nytt
Selfoss_merki_nytt

Fyrr í dag vann 3. flokkur karla magnaðan sigur á Stjörnunni í Mýrinni 29-30. Sigurinn er mikilvægur fyrir strákana sem sýndu það í þessum leik að þeir hafa bætt leik sinn töluvert í vetur.

Selfoss byrjaði vel og var yfir nær allan fyrri hálfleikinn. Þrátt fyrir það var varnarleikur liðsins slakur. Liðið lék vörn Stjörnunnar hins vegar oft grátt og gerðu einnig fín hraðaupphlaupsmörk. Í hálfleik leiddi Selfoss 16-17.

Í upphafi síðari hálfleiks náði Selfoss öflugum varnarkafla og skyndilega komnir 18-22 yfir. Stjarnan minnkaði muninn aftur og varð leikurinn æsispennandi. Þrátt fyrir að Selfyssingar misstu Árna Guðmundsson útaf með rautt spjald héldu þeir haus undir lok leiks og voru úrræðagóðir þegar mest á reyndi. Sölvi varði mikilvæg skot í markinu og urðu lokatölur 29-30.

Varnarleikurinn kom á köflum í síðari hálfleik og munaði um það. Markvarsla Sölva var góð. Í sókninni dróg Gísli Axelsson vagninn í fyrri hálfleik en var tekinn úr umferð meiri hluta leiksins. Sævar og Árni léku einnig mikilvægt og stórt hlutverk í liðinu og þá var Gunnar Páll ógnandi á línunni til að nefna einhverja en fleiri lögðu einnig til liðsins.

Þetta er mikilvægur sigur fyrir strákana sem greinilega neita að gefast upp þrátt fyrir vonbrigði og mótlæti líkt og tapið gegn Haukum í bikarnum var. Ætla þeir greinilega bara að stíga enn fastar til jarðar og halda áfram baráttunni. Er það jákvæðasti punktur dagsins.