Góður árangur á Vormóti HSK

Kristján Kári og Hjálmar Vilhelm byrjuðu fyrsta mót sumarsins af krafti
Kristján Kári og Hjálmar Vilhelm byrjuðu fyrsta mót sumarsins af krafti

Vormót HSK var haldið í blíðskaparveðri þann 14.maí síðastliðinn. Mótið var fyrsta mót vetrarins og þátttaka mjög góð og náðist ágætis árangur í mörgum greinum. Keppendur frjálsíþróttadeildar Selfoss létu sig ekki vanta á mótið og náðu þeir prýðis árangri á fyrsta utanhússmóti ársins.

Hjálmar Vilhelm Rúnarsson bætti HSK met Sveinbjörns Jóhannessonar frá árinu 2014 um 45cm er hann kastaði 5 kg kúlunni 15,89m í flokki 16-17 ára og sigraði. Hjálmar Vilhelm sigraði einnig í spjótkasti í flokki 16-17 ára með því að kasta spjótinu 59,34m og bæta sinn besta árangur.

Kristján Kári Ólafsson sigraði í sleggjukasti í flokki 16- 17 ára og bætti 5 ára gamalt HSK met Benjamíns Guðnasonar um 7.42m er hann þeytti sleggjunni 47,80m og sigraði. Kristján Kári bætti sig einnig í kúluvarpi er hann kastaði kúlunni 12,70m og náði öðru sæti í flokki 16 – 17 ára. Að lokum kastaði hann spjótinu 32,12m í flokki 16-17 ára og uppskar þriðja sæti.

Örn Davíðsson sigraði spjótkast í karlaflokki með 64.66m og Daníel Breki Elvarsson náði öðru sæti í sömu keppni með því að kasta 47,86m.

Hugrún Birna Hjaltadóttir sigraði í 300m grindahlaupi kvenna á tímanum 51,39 sek og félagi hennar úr Selfoss, Þórhildur Sara Jónasardóttir, kom skammt á eftir í mark á tímanum 51,54 sek og lenti í öðru sæti.

Daníel Smári Björnsson keppti í langstökki í karlaflokki og stökk 5,65 sem dugði til silfurverðlauna og Artur Thor Pardej hljóp 5000m hlaup til bronsverðlauna á tímanum 19:35,90 mín.

Bryndís Embla Einarsdóttir bætti sig í kringlukasti í kvennaflokki þegar hún kastaði kringlunni 31,71m og vann til silfurverðlauna og hún sigraði síðan spjótkast í flokki 16-17 ára með 44.61m löngu kasti sem er örstutt frá HSK meti hennar en Íslandsmetið í greininni er 45,93m. Bryndís Embla varð að lokum í öðru sæti í kúluvarpi í flokki 16-17 ára með 11,35m löngu kasti.

Hanna Dóra Höskuldsdóttir kastaði til bronsverðlauna í kúluvarpi í kvennaflokki með 9,80m löngu kasti. Arndís Eva Vigfúsdóttir kastaði einnig til bronsverðlauna í kúluvarpi í flokki 16-17 ára er hún varpaði kúlunni 11,22m. Ásta Kristín Ólafsdóttir bætti sig í spjótkasti með 33,83m í flokki 16-17 ára og náði öðru sæti.

Vésteinn Loftsson kastaði spjótinu 32,95m í flokki 16-17 ára og uppskar annað sæti.  Magnús Tryggvi Birgisson kastaði kúlunni 9.55m í flokki 15 ára og varð í öðru sæti og félagi hans Stormur Leó Guðmundsson lenti í þriðja sæti í sömu grein með 7.81m.

 

Bryndís Embla og Ásta Kristín á verðlaunapalli í spjótkasti í flokki 16-17 ára ásamt Helgu Fjólu Erlendsdóttir Garpi