Góður sigur fyrir vestan

Einar Sverrisson skoraði 13 mörk í leiknum
Einar Sverrisson skoraði 13 mörk í leiknum

Selfyssingar unnu sigur gegn Herði í Olísdeild karla í kvöld, 35-32. Leikið var í Íþróttahúsinu á Torfnesi en það er í fyrsta sinn sem Selfoss leikur þar í efstu deild. Ungmennaliðið okkar hefur mætt Herði í Grill 66 deildinni síðustu tvö ár en þetta er fyrsta tímabil Harðar í Olísdeildinni.

Leikurinn fór fjörlega af stað og mikið jafnræði var með liðunum, eftir 16 mínútur var staðan 8-8. Selfyssingar voru sterkari seinni hluta fyrri hálfleiks og leiddu í hálfleik 16-13.

Eftir 5 mínútur í seinni hálfleik voru Harðverjar búnir að jafna í 18-18 og áfram var jafnt á með liðunum. Um miðbik seinni hálfleiks áttu Selfyssingar góðan kafla og náðu mest sex marka forystu. Harðverjar minnkuðu muninn áður en Selfoss gaf aftur í og komust í 35-30 áður en Harðverjar skoruðu síðustu tvö mörk leiksins. Lokastaðan 35-32 og mikilvæg tvö stig í hús hjá okkar strákum.

Eftir leikinn sitja strákarnir í 6. sæti deildarinnar með 5 stig úr 5 leikjum en deildin er gríðarlega jöfn og spennandi. Næsti leikur Selfoss í Olísdeild karla verður í Set höllinni á Selfossi á föstudaginn klukkan 19:30 þegar þeir taka á móti KA. Stelpurnar taka svo á móti Fram á laugardaginn klukkan 16:00 í Set höllinni. Fjölmennum á leikina og styðjum við okkar lið.

Mörk Selfoss: Einar Sverrisson 13, Guðmundur Hólmar Helgason 5, Elvar Elí Hallgrímsson 4, Richard Sæþór Sigurðsson 4, Ísak Gústafsson 4, Guðjón Baldur Ómarsson 4 og Sölvi Svavarsson 1.

Varin skot: Vilius Rasimas 13 (31%), Jón Þórarinn Þorsteinsson 2 (33%).