Töluverðar breytingar urðu á stjórn UMFÍ á þingi sambandsins í Stykkishólmi um helgina, en sjö frambjóðendur, sem hafa ekki átt sæti í 11 manna stjórn og varastjórn UMFÍ náðu kjöri. Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, var sjálfkjörinn en hann gaf einn kost á sér í það embætti.
Helgi Sigurður Haraldsson formaður Umf. Selfoss og varaformaður HSK er einn þeirra sem kemur nýr inn í aðalstjórnina. Skúli Bragi Geirdal, sem kemur frá Íþróttabandalagi Akureyrar, Halla Margrét Jónsdóttir frá Íþróttabandalagi Akraness, Guðný Stefanía Stefánsdóttir frá Héraðssambandi Vestfirðinga og Margrét Sif Hafsteinsdóttir, sem kemur frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur, koma öll ný inn í stjórn UMFÍ. Sigurður Óskar Jónsson hlaut kosningu á ný en hann kemur frá Ungmennasambandinu Úlfljóti.
Birgir Már Bragason frá Íþróttabandalagi Reykjanesbæjar og Sigurður Eyjólfur Sigurjónsson frá Ungmennasambandi Vestur-Skaftafellssýslu koma nýir inn í varastjórn. Gunnar Þór Gestsson Ungmennasambandi Skagafjarðar og Ragnheiður Högnadóttir frá Ungmennasambandi Vestur-Skaftafellssýslu, sem bæði áttu sæti í stjórn, voru kosin í varastjórn.
Guðmundur Sigurbergsson, Gunnar Gunnarsson og Ásgeir Sveinsson náðu ekki endurkjöri og þá gáfu fjórar stjórnarkonur ekki kost á sér áfram, þær Guðmunda Ólafsdóttir, Hallbera Eiríksdóttir, Málfríður Sigurhansdóttir og Rakel Másdóttir.