Hitað upp fyrir EM - 8. hluti

Fimleikar_Hugrún Hlín
Fimleikar_Hugrún Hlín

Evrópumótið í hópfimleikum sem haldið er á Íslandi hefst á morgun. Níu þátttakendur uppaldir hjá Fimleikadeild Selfoss munu keppa með landsliðum Íslands í mismunandi flokkum. Mótið er einstakur viðburður í íþróttasögu Íslendinga en það verður sett með glæsilegri opnunarhátíð miðvikudaginn 15. október klukkan 17:00 í Frjálsíþrótthöllinni í Laugardal.

Við hitum upp fyrir mótið með viðtölum við landsliðsfólk Selfyssinga sem birtast hér á vef Umf. Selfoss á hverjum degi fram að móti.

Áttunda í röðinni er Hugrún Hlín Gunnarsdóttir sem keppir með blönduðu liði fullorðinna.

Hugrún Hlín er fædd 1994 og eru foreldrar hennar Anna Pálína Guðmundsdóttir og Gunnar Sigurðsson.

Fyrirmynd: Ég held bara að systir mín Eyrún Eva sé fyrirmyndin mín, veit ekki hversu góð fyrirmynd hún var en ég leit og líta ennþá mjög mikið upp til hennar.

Atrenna á trampólíni: Akkúrat 26 metrar með hægri fót fyrir framan.

Hvað gerir þú kvöldið fyrir mót? Ég geri mig alltaf alveg tilbúna kvöldið fyrir keppni, kaupi nesti og finn til fötin og double tékka hvort ég sé ekki örugglega með allt.

Markmið á EM: Auðvitað er markmiðið alltaf að lenda öll stökkin og negla dansinn en líka að hafa gaman og njóta þess að vera að keppa. Þetta gerist bara einu sinni á tveggja ára fresti og maður veit aldrei hvort maður komist aftur í landslið. Maður vill muna eftir reynslunni, hvernig manni gekk og hvernig manni leið af því að þetta eru bara þessir tveir aðaldagar og svo er þetta bara búið, allt erfiðið sem maður er búinn að fara í gegnum, að keyra í bæinn og hitta fjölskyldu og vini lítið. Þetta er reynsla sem maður vill muna eftir og gerir allt sem í sínu valdi stendur til að láta þetta ekki verða til einskis.

Eftirminnilegasta fimleikamótið: Ég held að það hafi verið Íslandsmót 2011 í Iðu. Þá höfðum við stelpurnar yfirtekið slökunarsalinn og markmið okkar var að hafa gaman og brosa til hver annarar. Dýnan gekk rosalega vel, mér tókst að dansa ágætlega því ég var aldrei mjög góð í dansi, er samt orðin betri núna. Svo var trampólínið geðveikt. Ég man líka alltaf eftir laginu Dance the night away með Jennifer Lopez, ég fæ ennþá hroll þegar ég heyri það. Ég man líka hvað það var svakaleg stemning í stúkunni! Verður það vonandi líka á EM.

Við óskum Hugrúnu Hlín góðs gengis á Evrópumótinu.

Við hvetjum ykkur að sjálfsögðu að næla ykkur í miða á Midi.is og veita afreksíþróttamönnum okkar stuðning beint í æð með því að mæta í Laugardalinn og styðja landsliðin okkar.

ÁFRAM ÍSLAND!


Fyrri kynningar:

Eysteinn Máni Oddsson

Alma Rún Baldursdóttir

Konráð Oddgeir Jóhannsson

Nadía Björt Hafsteinsdóttir

Rikharð Atli Oddsson

Rakel Nathalie Kristinsdóttir

Aron Bragason