Hrafnhildur Hanna tilnefnd sem besti leikmaður Olís-deildarinnar

Selfyssingurinn Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir sópaði til sín verðlaunum á lokahófi HSÍ sem haldið var á laugardagskvöld.

Hrafnhildur Hanna var markahæsti leikmaður Olís-deildar kvenna 2015 með 159 mörk, besti sóknarmaður Olís-deildarinnar og var auk þess útnefnd sem besta vinstri skyttan í deildinni og þar með valin í úrvalslið deildarinnar. Hún var einnig einn af þremur leikmönnum Olísdeildarinnar sem var tilnefnd sem besti leikmaður deildarinnar en í ár hlaut hin 37 ára Kristín Guðmundsdóttir úr Val þann titil. Þess má geta að Hrafnhildur Hanna varð tvítug sl. fimmtudag.

Þá var Selfyssingurinn Janus Daði Smárason, leikmaður Íslandsmeistara Hauka, var einnig valinn í úrvalslið Olís-deildar karla sem leikstjórnandi.

Til gaman má geta þess að Örn Þrastarson, leikmaður ÍF Mílan og bróðir Hrafnhildar Hönnu, var einn þriggja leikmanna sem var tilnefndur sem besti leikmaður 1. deildar karla en þann titil hlaut Viggó Kristjánsson úr Gróttu.