HSK hlaut hvatningarverðlaun UMFÍ

hsk-hvatningarverdlaun-umfi
hsk-hvatningarverdlaun-umfi

Héraðssambandið Skarphéðinn hlaut hvatningarverðlaun Ungmennafélags Íslands 2016 á sambandsráðsfundi UMFÍ sem fram fór að Laugum í Sælingsdal á laugardag.

Verðlaunin eru veitt fyrir öflugt og metnaðarfullt frjálsíþróttastarf á vegum frjálsíþróttaráðs HSK, en ráðið er vettvangur 14 aðildarfélaga HSK um sameiginlegt frjálsíþróttastarf.

Guðríður Aadnegard, formaður HSK, og Engilbert Olgeirsson, framkvæmdastjóri HSK, tóku við verðlaunum fyrir hönd HSK.

Frjálsíþróttafólk frá HSK hefur átt góðu gengi að fagna á mótum í gegnum tíðina. Frjálsíþróttaráð HSK hefur jafnframt rekið frjálsíþróttaskóla UMFÍ fyrir 11-18 ára börn og ungmenni síðastliðin sjö sumur. Skólinn er vinsæll og uppselt í hann á sumrin. Bæði þessi verkefni hafa verið unnin í góðu samstarfi við frjálsíþróttadeild Umf. Selfoss.

Þetta er í annað sinn sem HSK hlýtur hvatningarverðlaun UMFÍ en árið 2007 fékk sambandið þau fyrir framúrskarandi starf að kynningarmálum.