HSK/Selfoss Íslandsmeistari í flokki 11-14 ára

MÍ 11-14
MÍ 11-14

Meistaramót Íslands í frjálsum íþróttum í flokki 11-14 ára fór fram á Laugardalsvelli  við góðar aðstæður helgina 22.-23.júní sl. HSK/Selfoss sendi sameiginlegt lið til keppninnar og sýndi liðið mikla yfirburði og sigraði Meistaramótið með 837 stigum, FH varð í öðru sæti með 483,5 stig. HSK/Selfoss sigraði í þremur flokkum, í flokkum 11 og 13 ára pilta og í flokki 13 ára stúlkna.   Fjölmargir keppendur frá Frjálsiþróttadeild Selfoss kepptu á mótinu og stóðu sig frábærlega.  

 

Í flokki 11 ára varð Hjálmar Vilhelm Rúnarsson þrefaldur Íslandsmeistari. Hann sigraði  kúluvarp með 9,03m löngu kasti og spjótinu þeytti hann til sigurs 30,96m. Hann varð einnig Íslandsmeistari í 4x100m boðhlaupi ásamt Bjarka Sigurði Geirmundarsyni og félögum sínum úr HSK er þeir hlupu hringinn á 63,70sek.  Hjálmar Vilhelm vann til silfurverðlauna í 600m hlaupi á tímanum 2:07,38mín og í hástökki með 1.26m háu stökki. Hann kórónaði síðan góða frammistöðu sína með bronsverðlaunum í 60m hlaupi á tímanum 9,69sek og í langstökki þegar hann sveif 4,07m.

 

Í flokki 12 ára kastaði Eyþór Birnir Stefánsson spjótinu 24,91m og krækti sér í bronsverðlaun. Ísold Assa Guðmundsdóttir stökk 1.45m í hástökki og vann til bronsverðlauna og Lára Hlín Kjartansdóttir kastaði spjótinu 21.11m og fékk silfurverðlaun að launum. Þær stöllur Eydís Arna Birgisdóttir, Lára Hlin Kjartansdóttir, Ísold Assa Guðmundsdóttir og Kolbrún Karitas Gunnarsdóttir unnu til silfurverðlauna i 4x100m boðhlaupi á tímanum 62,26sek.

 

Í flokki 13 ára varð Oliver Jan Tomczyk Íslandsmeistari í kúluvarpi er hann varpaði henni 10,65m. Hann vann til silfurverðlauna í 80m grindahlaupi á tímanum 14,78s og í hástökki þegar hann vippaði sér yfir 1.41m.  Hann vann til bronsverðlauna í langstökki með 4,58m löngu stökki og að lokum vann hann til silfurverðlauna í 4x100m boðhlaupi ásamt Daníel Breka Elvarssyni og félögum sínum úr HSK á tímanum 58,02sek.Daníel Breki Elvarsson kastaði spjótinu til silfurverðlauna með því að kasta 31,46m. Álfrún Diljá Kristínardóttir varð Íslandsmeistari í kúluvarpi þegar hún varpaði kúlunni 11,08m og hún vann einnig til silfurverðlauna í 4x100m boðhlaupi (59,59 sek) ásamt Sæbjörgu Erlu Gunnarsdóttur og stöllum sínum úr HSK.  Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir krækti sér í bronsverðlaun í 600m hlaupi á tímanum 1:57,09mín og hun vann einnig til bronsverðlauna í 4x100m boðhlaupi á tímanum 62,35sek ásamt Hönnu Dóru Höskuldsdóttur og stöllum sínum úr HSK.

 

Í flokki 14 ára varð Tómas Þorsteinsson Íslandsmeistari í kúluvarpi með 9,89m löngu kasti og hann vann til silfurverðlauna með því að stökkva 5,34m í langstökki.  Að lokum hlaut hann bronsverðlaun í 80m grindahlaupi á tímanum 14,05s og í 100m hlaupi er hann kom í mark á tímanum 12,87s. Karólína Helga Jóhannsdóttir vann til þriggja silfurverðlauna, í hástökki stökk hún 1.46m og í langstökki sveif hún 4.83m.  Hún fékk síðan þriðju silfurverðlaunin í 4x100m boðhlaupi en hún og stöllur hennar úr HSK hlupu hringinn á 55,98sek.

Á myndinni með fréttinni má sjá þær stúlkur sem skipuðu A og B boðhlaupssveitir HSK/Selfoss