Jafntefli á móti KR

Selfoss merki
Selfoss merki

Meistaraflokkur karla í handbolta gerði í gær jafntefli við KR, 26 -26. Selfyssingar voru frekar stirðir í gang og höfðu KR-ingar frumkvæði í upphafi leiks. Selfoss náði að jafna í stöðunni 9 – 9 og fóru inn í hálfleikinn með eins marks forystu 13 – 14.

Okkar strákar mættu sprækir inn í seinni hálfleikinn og náðu ágætu forskoti en þó náðu þeir aldrei að slíta KR almennilega af sér og hleyptu þeim aftur inn í leikinn í stöðunni 17 – 17. Selfoss komst í 18 – 20 en eftir það var jafnt á flestum tölum. Þegar 25 sekúndur voru eftir var staðan 25 – 26 og sigur Selfyssinga virtist í höfn þegar KR-ingar fá dæmt vítakast, sem var frekar harður dómur. KR skoraði úr vítakastinu eftir að leiktíma lauk og jafntefli því staðreynd.

Andri Már Sveinsson var langmarkahæstur Selfyssinga í leiknum með átta mörk. Hvorki fleiri né færri en átta leikmenn skoruðu tvö mörk í leiknum, það voru Guðjón Ágústsson, Elvar Örn Jónsson, Egidijus Mikalonis, Daníel Arnar Róbertsson, Ómar Vignir Helgason, Gunnar Ingi Jónsson, Jóhann Erlingsson og Matthías Örn Halldórsson. Þá skoruðu þeir Hörður Másson og Örn Þrastarson eitt mark hvor.

Selfyssingar voru klaufar að ná ekki báðum stigunum út úr þessum leik, voru ekki að nýta færin nægilega vel og náðu aldrei að hrista KR af sér. Hvert stig er gríðarlega mikilvægt í efri hluta deildarinnar en Selfoss er áfram í þriðja sætinu með 11 stig eftir þennan leik.

Um næstu helgi eiga strákarnir leik á móti Víkingum á útivelli. Leikurinn fer fram í Víkinni sunnudaginn 24. nóvember og hefst kl. 19:30. Nú þurfa stuðningsmenn Selfoss að fjölmenna í Víkina og gera allt vitlaust á pöllunum og hjálpa þannig strákunum að ná báðum stigunum í þeim leik.