Karitas semur til tveggja ára

karitas_tomasdottir291218ekth
karitas_tomasdottir291218ekth

Kvennalið knattspyrnudeildar Selfoss kveður árið 2018 með hvelli en í dag skrifaði miðjumaðurinn Karitas Tómasdóttir undir tveggja ára samning við félagið.

 

Undanfarin þrjú tímabil hefur Karitas spilað með Selfossi yfir hásumarið á meðan hún hefur stundað nám við TCU háskólann í Texas í Bandaríkjunum. Hún útskrifast næsta vor og mun því spila heilt tímabil með Selfossliðinu á komandi sumri.

 

Karitas hefur verið algjör lykilmaður á miðjunni hjá Selfossliðinu og var einn af sterkustu leikmönnum Pepsideildarinnar á síðasta tímabili samkvæmt InStat tölfræðinni. Hún hefur leikið 109 meistaraflokksleiki fyrir Selfoss, þar af 63 í efstu deild.

 

„Ég er mjög spennt fyrir því að framlengja samninginn minn og geta loksins klárað heilt sumar í Pepsideildinni. Við munum klárlega stefna á að gera betur á næsta tímabili, við erum með fullt af sterkum leikmönnum og yngri leikmenn munu stíga upp eins og þeir gerðu í fyrra. Við erum áfram með Caitlyn Clem í markinu sem hjálpaði okkur mikið á síðasta tímabili og höfum samið við spennandi framherja þannig að mér líst mjög vel á þetta. Það er alltaf mikill metnaður á Selfossi og það er gott að vinna með þjálfurunum Alfreð og Óttari og öllum í kringum liðið,“ segir Karitas.

 

 

 

Karitas Tómasdóttir og Guðmundur Karl Sigurdórsson, úr meistaraflokksráði kvenna, handsala samninginn. Ljósmynd/UMFS