Keppni á Íslandsmótinu hefst á JÁVERK-vellinum á laugardag

Einar Ottó gegn ÍA 2014
Einar Ottó gegn ÍA 2014

Keppni í 1. deildinni í knattspyrnu hefst á laugardag þegar Selfyssingar taka á móti BÍ/Bolungarvík á JÁVERK-vellinum en leikurinn var færður frá Ísafirði vegna þess að enn er snjór á vellinum fyrir vestan.

Vefmiðillinn Fótbolti.net spáir Selfyssingum 8. sæti í deildinni en umfjöllunin sem hér fylgir byggir að nokkru á umsögn fótboltamiðilsins.

Eins og Selfyssingar vita hefur liðið verið í neðri hluta deildarinnar undanfarin tvö tímabil. Til að breyta því var Zoran Miljkovic fenginn til að taka við þjálfun liðsins af Gunnari Guðmundssyni eftir síðasta keppnistímabil. Zoran þekkir vel til á Selfossi en hann kom liðinu upp úr 2. deild árið 2007 og var hársbreidd frá því að fara með Selfyssinga upp í Pepsi-deild í fyrsta skipti ári síðar.

Á vef DFS.is má finna viðtal við Zoran.

Að sögn Fótbolta.net felast styrkleikar liðsins í skipulagi og varnarleik sem ætti að vera í fínum málum undir stjórn Zoran. Þá eru vonir bundnar við að Elton Barros, framherji frá Grænhöfðaeyjum, finni netmöskvana í auknum mæli í sumar en hann missti af stórum hluta tímabilsins í fyrra vegna meiðsla. Þá hafa ungu leikmennirnir í liðinu fengið dýrmæta reynslu í 1. deildinni undanfarin tvö tímabil.

Veikleikar Selfoss undanfarin ár hefur verið sóknarleikurinn en liðið skoraði aðeins rúmlega mark að meðaltali í leik í fyrra en að mati Fótbolta.net vantar fleiri leikmenn sem geta tekið af skarið í leikjum. Þá er nauðsynlegt að byggja upp enn meiri og betri stemningu í kringum liðið þannig að fólk fjölmenni á völlinn.

Liðið fékk níu nýja leikmenn fyrir upphaf tímabilsins en níu leikmenn hurfu einnig á braut. Nýjir leikmenn eru eftirfarandi:

Arnar Logi Sveinsson frá Ægi, Ingþór Björgvinsson frá Hamri, Ivanirson Silva Oliveira frá Grænhöfðaeyjum, Kristján Atli Marteinsson frá Fjarðabyggð, Jordan Edridge frá Grindavík, Marko Pavlov eftir frí, Matthew Watley frá Wales, Sigurður Eyberg Guðlaugsson frá Ægi og Denis Sytnik frá Möltu.

---

Einar Ottó verður í lykilhlutverki í liði Selfoss í sumar.
Ljósmynd: Fótbolti.net/Hafliði Breiðfjörð