Lífshlaupið, heilsu-og hvatningarverkefni ÍSÍ, hefst 1. febrúar

Lífshlaupið verður ræst í fimmta sinn miðvikudaginn 1. febrúar n.k. Um 16.400 manns tóku þátt í Lífshlaupinu á síðasta ári og fjölgaði þátttakendum um rúmlega 3000 á milli ára. Lífshlaupið höfðar til allra landsmanna og er hægt að skrá þátttöku á vefsíðu Lífshlaupsins www.lifshlaupid.is en þar gefst þátttakendum kostur á að taka þátt í:

  • vinnustaðakeppni frá 1. - 21. febrúar, fyrir 16 ára og eldri (þrjár vikur)
  • hvatningarleik fyrir grunnskóla frá 1. - 14. febrúar, fyrir 15 ára og yngri (tvær vikur)
  • einstaklingskeppni þar sem hver og einn getur skráð inn sína hreyfingu allt árið

Markmið Lífshlaupsins er að hvetja almenning til þess að hreyfa sig og huga að sinni hreyfingu í frítíma, heimilisstöfum, vinnu, skóla og við val á ferðamáta. Skrá má alla hreyfingu inn á vefinn svo framarlega sem hún nær ráðleggingum embætti landlæknis um hreyfingu. Börn og unglingum er ráðlagt að hreyfa sig í a.m.k. 60 mínútur á dag og fullorðnir a.m.k. 30 mínútur á dag.

Vinnustaðir/skólar er sá vettvangur þar sem hagsmunir vinnustaða og íþróttahreyfingarinnar liggja saman við uppbyggingu almennings- og fyrirtækjaíþrótta, forvörnum og velferð samfélagsins til framtíðar.

HSK hvetur vinnustaði á sambandssvæðinu til að taka þátt. Nota þannig tækifærið til að skapa létta stemningu og efla um leið líkama, sál og félagsandann með því að hreyfa sig daglega.

Nánari upplýsingar um Lífshlaupið og skráningu gefur Jóna Hildur Bjarnadóttir, sviðsstjóri Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ, jona@isi.is í síma: 514-4000.