OLÍS mótinu frestað

olísmótið
olísmótið

Helgina 7.-9. ágúst var fyrirhugað að halda OLÍS-mótið á Selfossi í sextánda skipti. Mótið er stærsta verkefni knattspyrnudeildar Selfoss ár hvert og hefur undanfarnar vikur verið í mörg horn að líta við skipulag og undirbúning mótsins, ekki síst í ár þar sem skipulag mótsins var sniðið að þeim fjöldatakmörkunum og sóttvarnaraðgerðum sem í gildi hafa verið. Skráning á mótið hefur aldrei verið meiri og stefndi í metþátttöku.

Í ljósi upplýsinga sem yfirvöld sendu frá sér í dag, þar sem hertari aðgerðir vegna kórónuveirunnar voru kynntar, þeirra á meðal að fjöldatakmörk verða lækkuð úr 500 manns niður í 100 manns og að tveggja metra reglan tekur aftur gildi og er því ekki lengur valkvæð, hefur knattspyrnudeild Selfoss og OLÍS tekið ákvörðun um að fresta mótinu um óákveðinn tíma. Reglurnar gilda næstu tvær vikurnar hið minnsta en mótsstjórn mun fylgjast vel með framgangi mála næstu vikurnar með það að markmiði að finna mótinu nýja dagsetningu, sem vonandi verður síðar í ágúst eða í september ef aðstæður leyfa.

Þrátt fyrir að knattspyrnudeild Selfoss sjái sér fært um að halda mótið með breyttu sniði innan gildandi viðmiða telur deildin það vera samfélagsleg skyldu sína að sýna ábyrgð og fresta mótinu þar til aðstæður í samfélaginu leyfa. Við tökum heilshugar undir orð Víðis um að „nú gildir að standa saman og tækla þetta af ábyrgð“ og hvetjum okkur öll sem eitt til að tækla komandi daga og vikur af ábyrgð, samstöðu og skynsemi.

Við munum upplýsa um framgang mála á miðlum Umf. Selfoss.

Stjórn knattspyrnudeildar Selfoss.