Öruggur sigur í 4. flokki

Selfyssingar mættu KR í 4. flokki karla í dag. Í Selfoss liðið vantaði tvo sterka pósta, þá Hergeir og Richard, sem voru frá vegna meiðsla en auk þeirra var Guðjón slappur og gat ekki beitt sér af fullu. Þrátt fyrir það vann Selfoss 10 marka sigur, 30-20, og var sigurinn aldrei í hættu. Það er því greinilegt að breiddin í flokknum er mikil.

Okkar menn í raun stjórnuðu leiknum allt frá byrjun. Þeir komust í 6-1 og eftir 20 mínútur var staðan orðin 15-8 þeim í vil. Höfðu Selfyssingar þá skorað úr öllum 15 skotum sínum í leiknum! KR-ingar söxuðu aðeins á forskotið undir lok fyrri hálfleiks og 16-11 í hálfleik. Selfoss bætti svo aftur við muninn í síðari hálfleik og komst mest 12 mörkum yfir en lokatölur urðu 30-20 sigur þeirra.

Strákarnir spiluðu frábæran sóknarleik nær allan leikinn auk þess að leika góðan varnarleik lengstan hluta leiksins. Sævar Ingi og Ómar Ingi voru atkvæðamestir í liði Selfoss og réðu KR-ingar illa við þá. Aðrir leikmenn léku einnig vel. Elvar Örn átti t.a.m. 6 stoðsendingar, Árni var öflugur í vörn sem sókn þó að hann hefði hæglega getað gert fleiri mörk, Magnús Øder átti svo frábæra innkomu. Þá skoruðu allir þrír hornamennirnir sem léku að þessu sinni og munar um það. Að þessu sinni varði Halldór meira af markvörðunum eða 8 skot (53%).

Næsti leikur 4. flokks er gegn HK sunnudaginn 11. mars. Er þar næsta tækifæri fyrir strákana að safna stigum og bæta leik sinn áfram.