Sæmundur Runólfsson lætur af störfum sem framkvæmdastjóri UMFÍ

Stjórn Ungmennafélags Íslands (UMFÍ) og framkvæmdastjóri félagsins, Sæmundur Runólfsson, hafa komist að samkomulagi um starfslok. Sæmundur lætur af störfum þann 30. apríl n.k. eftir ríflega 23ja ára starf. Sæmundur tók til starfa sem framkvæmdastjóri þann 1. janúar árið 1992. Hann hafði áður setið í stjórn UMFÍ 1985-1991 og verið framkvæmdastjóri Landsmóts UMFÍ í Mosfellsbæ árið 1990. Frá þessu er greint í fréttatilkynningu á heimasíðu UMFÍ.

„Ég er afar þakklátur fyrir að hafa unnið hjá ungmennafélagshreyfingunni þennan tíma og innan hennar á ég marga af mínum bestu vinum. Ég geng stoltur frá borði því ég tel hreyfinguna standa vel. Starfið hefur verið fjölbreytt og skemmtilegt og það veitt mér tækifæri til að koma að mörgum verkefnum sem haft skipt miklu máli fyrir íslenskt samfélag,“ segir Sæmundur Runólfsson.

Sæmundur hefur gegnt fjölmörgum öðrum trúnaðarstörfum á vegum ungmennafélagshreyfingarinnar. Hann var meðal annars formaður UMF Drangs í Vík 1977-1983, sat í stjórn Íslenskra getrauna 1992-2009, íþróttanefnd ríkisins 1992-2004 og í stjórn ISCA (International Sport and Culture Association) 1999-2011.

„Stjórn UMFÍ þakkar Sæmundi fyrir langt og farsælt starf í þágu hreyfingarinnar. Hann er kröftugur og ósérhlífinn einstaklingur sem ávallt hefur verið til taks fyrir ungmennafélagshreyfinguna og haft hagsmuni hennar að leiðarljósi. Það er sjónarsviptir af honum og við óskum honum alls hins besta á nýjum vettvangi,“ segir Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ.