Selfoss með góðan sigur á Fjölni

Selfoss sótti Fjölni heim í Grafarvoginn í kvöld eftir eins og hálfs mánaðar frí í fyrstu deildinni.  Þar af leiðandi var mikill haustbragur af leiknum. Leikurinn var í járnum á upphafsmínútunum og skiptust liðin á forystunni. Staðan var þó 4-5 fyrir Selfoss eftir  10 mínútur. Þá tók við fremur slakur kafli hjá Selfyssingum þar sem hvorki vörn né sókn var upp á marga fiska. Tóku Fjölnismenn þá tveggja marka forystu 8-6. Áfram hélt þessi forysta Fjölnis liðsins og þegar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik var staðan 11-9. Þá loksins byrjaði Selfoss að spila almennilega vörn og fengu upp úr því 3 mjög auðveld mörk og staðan 11-12. Þó hálf ótrúlegt að liðið var ennþá í leiknum á þessum tímapunkti þar sem markverðirnir höfðu aðeins varið tvö skot.  Liðið bætti aðeins í seinustu mínúturnar en þó var staðan einungis 13-15 í hálfleik. Liðið var þá að spila langt undir getu og sóknarleikurinn mjög hægur og menn staðir.

Mynd:sunnlenska.is/Björn Ingvarsson

Það kom allt annað lið út í síðari hálfleik.  Vörnin miklu betri, en liðið þó ennþá í vandræðum sóknarlega. Þannig hélt liðið markinu hreinu fyrstu  5 mínúturnar og staðan 13-17. Þá tók við mjög slæmur kafli sóknarlega þar sem liðið skoraði ekki mark í 5 mínútur,  en Fjölnir eitt.  Staðan því 14-17. Liðið bætti svo í forskotið jafnt og þétt í síðari hálfleik og þegar 10 mínútur voru eftir var staðan 18-22. Seinustu mínúturnar áttu Fjölnismenn ekkert í Selfoss liðið sem skellti algjörlega í lás í vörninni. Liðið bætti svo í sóknina og fengu auðvelt mörk. Hægt og rólega jókst forskotið og þegar 5 mínútur voru eftir var staðan 18-25. Var þá Gústaf Lilliendahl búinn að skora mark leiksins, erfitt er að lýsa þessu stórkostlega marki. En hann virtist grípa boltann með annari og skjóta aftur fyrir sig með mann í bakinu beint upp í fjær hornið. Gífurlega fallegt mark í fyrsta leik hans með Selfoss síðan 2009. Selfoss skoraði svo tvö síðustu mörkin og mjög þægilegur 9 marka sigur staðreynd 18-27.

Vörn liðsins skóp þennan sigur algjörlega. Mjög gaman að sjá liðið spila skemmtilega 5-1 vörn með Einar Sverrisson fyrir framan og svo Einar Pétur undir lok leiksins. Fjölnir átti í miklu basli með varnarleik Selfoss og fengu að kenna á því. Best sést hversu góð vörnin var að liðið var með 42 brotin fríköst. Liðið má hinsvegar ekki við því að byrja jafn illa og í dag gegn betri liðum. Markvarslan var langt frá því að vera góð í fyrri hálfleik, en snarbatnaði í þeim síðari. Gaman var að sjá Örn Þrastarsson og Andra Má Sveinsson spila loksins aftur. Einnig átti Gústaf góða innkomu inn á línuna. Sigurður Már Guðmundsson lék því miður ekki  í dag, en hann tognaði lítilega aftan á lærinu í vikunni. Hann verður þó vonandi kominn í stand fyrir næst leik.

SelfossTV:

Jói á pöllum

Næsti leikur liðsins er gegn Þrótti á heimavelli föstudaginn 8. febrúar klukkan 19:30.

Tölfræði:

Einar S 7/13, 7 stoðsending, 2 varin skot og 6 brotin fríköst

Hörður Gunnar 4/5, 1 stoðsending og 1 brotið fríkast

Gunnar Ingi 4/5, 2 stolnir boltar og 2 brotin fríköst

Matthías Örn 3/10, 4 varin skot, 3 fráköst og 12 brotin fríköst

Gústaf L 3/5, 3 varin skot og 4 brotin fríköst

Örn Þ 2/2

Einar Pétur 2/5, 2 stolnir boltar, 2 fráköst og 1 brotið fríkast

Andri Már 1/2, 1 frákast og 1 brotið fríkast

Hörður M 1/6, 7 stoðsendingar , 2 tapaðir boltar  og 11 brotin fríköst

Ómar Vignir 1 fiskaður bolti, 1 varið skot og 3 brotin fríköst

Magnús Már 1 brotið fríkast

 

Markvarsla:

Helgi varði 2 og fékk á sig 9(18%)

Sverrir varði 16/1 og fékk á sig 9(65%)