Selfoss með sigur í grannaslagnum

Self-Fjölnir 09
Self-Fjölnir 09

Það var sannkallaður Selfoss slagur þegar Selfoss og nýstofnað lið Mílunnar mættust í vikunni í íþróttahúsi Vallaskóla. Það var vart við smá taugatitring hjá báðum liðum enda þekkjast allir þessir leikmenn vel, eiga það sameiginlegt að hafa klæðst vínrauðu og bæði lið komin til að sanna sig og ná í stig. Mun meiri barátta var í liði Mílunnar í fyrri hálfleik og leiddu þeir með einu marki þegar flautað var til leikhlés í stöðunni 12-13. Í seinni hálfleik þéttu Selfyssingar vörnina og náðu smá saman að síga fram úr og var munurinn mestur sex mörk í stöðunni 26-20. Lokatölur urðu 28-23 fyrir Selfoss.

Það var gaman að sjá hve margir mættu í húsið til að fylgjast með þessum sérstaka en skemmtilega leik en það er ekki á hverjum degi sem tvö lið mætast þar sem leikmenn eru allir uppaldir hjá Selfoss. Ekki hægt að segja annað en það sé jákvætt hve marga handboltamenn félagið hefur alið af sér.

Markahæstir í liði Selfoss voru Egidijus Mikalonis og Jóhann Erlingsson með sjö mörk hvor. Sverrir Pálsson skoraði þrjú mörk, Hörður Másson, Hergeir Grímsson og Gunnar Ingi með tvö mörk hver, Guðjón Ágústsson, Elvar Örn, Ómar Vignir, Andri Már og Árni Geir allir með eitt mark.

Sebastian varði 12 skot, var með 57% markvörslu og Sölvi Ólafsson varð 6 skot, var með 30% markvörslu.

Mynd: Jóhann Erlingsson