Selfoss sex mörkum undir í einvíginu

Selfoss í Malmö
Selfoss í Malmö

Selfoss tapaði með sex mörkum í gær, 33-27, gegn sænska liðinu HK Malmö í fyrri leik annarar umferðar Evrópukeppni félagsliða.

Fyrri hálfleikur spilaðist nokkuð vel og voru Selfyssingar skrefi á undan fyrstu mínúturnar með Sölva fremstan í flokki. Malmö-menn náðu hins vegar yfirhöndinni undir lok fyrri hálfleiks og náðu mest þriggja marka forskoti, 14-11. Selfyssingar náðu hins vegar að jafna leikinn eftir flottan lokakafla og staðan í hálfleik var 17-17. 

Seinni hálfleikurinn var hins vegar töluvert frábrugðinn þeim fyrri, lítið gekk upp hvorki í sókn né vörn. Malmö náðu fljótt yfirhöndinni í leiknum og sigu hægt og rólega fram úr og náðu mest 8 marka mun. Magnús Öder skoraði síðasta mark leiksins á lokasekúndum þess og leiknum lauk með sex marka tapi Selfoss 33-27.

Selfoss þarf því að vinna upp sex marka mun á laugardaginn næsta, en þeir sem þekkja til vita að Selfyssingar gefast ekki auðveldlega upp. Strákarnir þurfa hins vegar á ykkar stuðningi að halda. Mætum því og styðjum okkar stráka í Hleðsluhöllinni á laugardaginn kl 18:00.

Mörk Selfoss: Haukur Þrastarson 6, Atli Ævar Ingólfsson 6, Magnús Öder Einarsson 5, Árni Steinn Steinþórsson 4, Alexander Már Egan 3, Hergeir Grímsson 2, Nökkvi Dan Elliðason 1

Varin skot: Sölvi Ólafsson 6 (26%) og EinarBaldvin Baldvinsson 5 (23%)

Næsti leikur hjá strákunum er gegn ÍBV í Eyjum á miðvikudagskvöldið kl 18:30. Þeir mæta síðan Malmö á laugardaginn næstkomandi kl 18:00 í Hleðsluhöllinni.  Stelpurnar fara í Austurbergið á föstudagskvöldið og mæta þar ÍR kl 19:30.  Við hvetjum að sjálfsögðu alla til að mæta á leikina og styðja stelpurnar og strákana okkar.


Mynd: Strákarnir tóku hringinn fyrir leik í gær.
Umf. Selfoss / ESÓ