Selfoss sigraði Unglingamót HSK

Þriðjudaginn 21. júní sl. fór fram Unglingamót HSK í frjálsíþróttum. Mótið var haldið á nýja frjálsíþróttavellinum á Selfossi í góðu veðri. Keppendur voru 18 fleiri í  ár en í fyrra eða 48 talsins frá 9 félögum, sem er góð viðbót,  en 10 af þessum 18 keppendum voru af Reykjavíkursvæðinu og kepptu því sem gestir.

Keppt var í sjö greinum í hverjum flokki hjá drengjum og stúlkum og mátti hver þátttakandi keppa í 5 greinum auk boðhlaups til stiga. Stigahæsti einstaklingur mótsins var Andrea Vigdís Victorsdóttir Selfossi með fullt hús stiga eða 30. Hún sigraði allar sínar greinar sem voru langstökk, hástökk, 100 m hlaup, kúluvarp og spjótkast.

Besta afrek mótsins vann Bjarni Már Ólafsson Vöku er hann stökk 6,55 m í langstökki í flokki 20-22 ára. Fékk hann 823 stig fyrir þennan árangur. Almennt náðist ágætur árangur á mótinu en hægt er að sjá nánari úrslit á fri.is.

Umf. Selfoss sigraði svo heildarstigakeppnina milli félaga örugglega með 234 stig. Lið Laugadæla varð í 2. sæti  með 75 stig. Sameinað lið Vöku, Samhygðar og Baldurs undir merkjum Þjótánda varð svo í 3. sæti með 49 stig.

Með kv. Óli Guðm. verkefnisstjóri HSK í frjálsum.