Selfyssingar í 4. sæti á Norden Cup

Norden Cup vefur
Norden Cup vefur

Strákarnir í 2001 árganginum í handbolta brugðu undir sig betri fætinum um jólin og tóku þátt í Norden Cup í Svíþjóð en á mótið er boðið titilhöfum viðkomandi árgangs frá öllum Norðurlöndunum.

Það er skemmst frá því að segja að strákarnir enduðu í 4. sæti á mótinu eftir gríðarlega spennandi keppni. Þeir komust næsta auðveldlega upp úr riðlakeppninni og sigruðu andstæðinga sína í fjórðungsúrslitum með gullmarki eftir að staðan var jöfn að loknum venjulegum leiktíma. Því miður snerist dæmið við í undanúrslitum þar sem þeir töpuðu með einu marki gegn liðinu sem vann mótið. Leikurinn um þriðja sætið tapaðist einnig með einu marki eftir mikla spennu.

Strákarnir stóðu sig gríðarlega vel og framfarirnar voru miklar. Allir leikmenn liðsins skiluðu sínu hlutverki vel af sér og myndaðist gríðarlega öflug liðsheild þegar leið á mótið.

Leikmenn, þjálfarar og foreldrar geta verið stoltir af því að vera fjórða besta lið á Norðurlöndunum og eiga fullt erindi í hin þrjú liðin á undan. Strákarnir höguðu sér eins og sannir atvinnumenn og voru sínu félagi til mikils sóma í Svíþjóð.

öþ/gj

---

Strákarnir voru Selfyssingum til sóma í Svíþjóð.
Ljósmynd: Umf. Selfoss