Selfyssingar stóðu sig með sóma á WOW Íslandsmótinu í skák

Selfyssingar tefldu fram harðsnúnu liði á WOW Íslandsmótinu í skák sem fram fór á Hlíðarenda nú í september. Auðvitað lá fyrir að róðurinn yrði þungur enda flestir af bestu skákmönnum þjóðarinnar á staðnum að freista þess að hafa sigur í mótinu og ekki voru verðlaun skorin við nögl, utanlandsferðir fyrir alla keppendur sigurliðs. Það fór svo að Sveit Selfoss náði þó einum 6 vinningum, þar af fjórum í siðustu umferð sem var hrein úrslitaviðuregin um 9. sætið en þar vann Selfoss Leikni frá Reykjavík.

Sveit okkar manna var skipuð liðsmönnum úr hinu kraftmikla Skákfélagi Selfoss og nágrennis (SSON), og var skipuð Magnúsi Matthíassyni, Ingvari Erni Birgissyni, Árna Guðbjörnssyni og Grantas Grigorias.
 
Bláklæddir Framarar sigruðu með yfirburðum, eftir að hafa hrist af sér Val og KR, sem veittu Safamýrarpiltunum keppni framan af. Lið Íslandsmeistaranna skartaði stórmeisturunum Jóhanni Hjartarsyni og Helga Áss Grétarssyni, alþjóðameistaranum Braga Þorfinnssyni og hinum þrautreynda Elvari Guðmundssyni. Lokaúrslit urðu: 1. Fram 18 stig, 2. Valur 16 stig, 3. KR 14 stig, 4. KA 10 stig, 5. Þróttur 9, 6. Breiðablik 7 stig, 7. ÍBV 7 stig, 8. Akranes 6 stig, 9. Selfoss 2 stig, 10. Leiknir 1 stig.
 
Skákáhugamenn á öllum aldri í Árborg og nágrenni eru hjartanlega velkomnir á æfingar og mót hjá SSON. Allar upplýsingar um starfið er að finna á heimasíðu félagsins: http://sudurskak.blog.is/blog/sudurskak/
 
Mynd: Grantas gegn Róbert Lagerman, Val.