Selfyssingar unnu sveitakeppni HSK

Dagný háskólameistari
Dagný háskólameistari

Árleg sveitakeppni HSK í skák fór fram í Selinu á Selfossi miðvikudagskvöldið 17. desember. Löng hefð er fyrir þessari keppni og leggja aðildarfélög alla jafna nokkuð á sig til að taka þátt.  Í ár voru það sex sveitir sem tefldu fram keppendum. Það voru þessar sveitir: Selfoss, Gnúpverjar, Hekla A, Hekla B, Dímon og Baldur.

Greint er frá þessu á vef HSK.

Teflt er í fjögurra manna sveitum og hefur hver leikmaður 15 mínútur til að knésetja andstæðing. Í ár var keppni óvenju jöfn.

Til gamans skal hér rifjað upp hverjir hafa sigrað síðustu ár. 2009 Þór Þorlákshöfn, 2010 Selfoss, 2011 Baldur, 2012 Selfoss og 2013 Ásahreppur.

Venju samkvæmt var barist á öllum borðum og grið sjaldan gefin. Þrjár sveitir voru áþekkar að styrkleika að virtist, Selfyssingar, Baldursmenn og Heklungar, enda fór það svo að þessar sveitir voru í einum hnappi fyrir síðustu umferð. Baldur með 12,5 vinninga, Selfoss með 11,5 vinninga og Hekla með 11 vinninga.

Staða Selfoss líklega sýnu best enda mættust Hekla og Baldur í síðustu umferð, sú viðureign endaði með öruggum 3-1 sigri Heklu.  Á sama tíma vann Selfoss B-sveit Heklu, sem skipuð er gríðarlega efnilegum börnum frá Hellu, með fullu húsi.

Þetta gerði það að verkum að Selfoss vann keppnina, nokkuð verðskuldað, enda unnu þeir allar sínar viðureignir.

Lokastaðan:

  1. Selfoss 15,5 vinningar
  2. Hekla A 14 vinningar
  3. Baldur 13,5 vinningar
  4. Dímon 8 vinningar
  5. Gnúpverjar 6 vinningar
  6. Hekla B 3 vinningar

Sigursveit Selfoss skipuðu: Magnús Matthíasson, Erlingur Jensson, Þorvaldur Siggason og Magnús Garðarsson.

---

Ljósmynd: HSK