Senur á Selfossi

Knattspyrna - Selfyssingar fagna sigurmarki
Knattspyrna - Selfyssingar fagna sigurmarki

Selfyssingar unnu frábæran sigur á Grindavík þegar liðin mættust í 16. umferð Lengjudeildarinnar á JÁVERK-vellinum á föstudag. Veðurblíðan lék við vallargesti sem fengu einnig að horfa á frábæran knattspyrnuleik tveggja góðra liða.

Selfyssingar byrjuðu leikinn af miklum krafti en fyrsta markið kom eftir tæpar fimm mínútur. Þorsteinn Daníel Þorsteinsson sendi þá Gary Martin einan inn fyrir vörn Grindvíkinga og hann setti boltann í netið úr þröngu færi. Selfyssingar héldu áfram að sækja og annað mark kom tíu mínútum fyrir hálfleik. Emir Dokara átti þá frábæra sendingu inn fyrir vörn Grindvíkinga, líkt og áður var Gary réttur maður á réttum stað og setti boltann í markið. 2-0 þegar dómari leiksins flautaði til hálfleiks.

Jafnræði var með liðunum í upphafi síðari hálfleiks. Grindavík minnkaði muninn úr vítaspyrnu þegar tuttugu mínútur voru til leiksloka. Jöfnunarmark gestanna kom síðan á 88. mínútu leiksins.

Það leit allt út fyrir það að liðin ætluðu að skiptast á jafnan hlut en allt kom fyrir ekki. Í uppbótartíma skoraði Þór Llorens Þórðarson sigurmark Selfyssinga þegar hann fékk boltann á fínum stað inni í vítateig Grindavíkur, hann mundaði skotfótinn, lét til skarar skríða og boltinn endaði í fjærhorninu, 3-2 og frábær sigur Selfyssinga staðreynd.

Nánar er fjallað um leikinn á vef Sunnlenska.is

Liðið situr í 10. sæti deildarinnar með 15 stig. Næsti leikur liðsins er á útivelli gegn toppliði Fram á fimmtudag, kl. 19:15.

Umf. Selfoss/ahm

---

Selfyssingar fögnuðu sigurmarki Þórs innilega.
Ljósmynd: Sunnlenska.is/GKS