Sigur í 4. flokki

4.fl.
4.fl.

Strákarnir í 4. flokki Eldri (97) mættu Þrótturum í Laugardalshöllinni í gær. Fyrir utan slakan  10 mínútna kafla í leiknum var Selfoss liðið mun betra og sigraði 26-33.

Þróttarar eru í 4. sæti deildarinnar og hafa verið að ná góðum úrslitum, sérstaklega á heimavelli. Okkar menn byrjuðu mun betur í leiknum og voru með leikinn algjörlega í höndum sér. Strákarnir voru 3-8 yfir þegar Þróttarar taka leikhlé. Kom þá skyndilega 9-2 kafli hjá heimamönnum og Þróttur allt í einu komið 12-10 yfir. Vöknuðu Selfyssingar þá aftur og voru yfir 14-15 í hálfleik.

Selfoss bætti við muninn í upphafi síðari hálfleik en náði ekki að slíta sig meira en 3-4 mörkum frá heimamönnum fyrr en þeir breyttu um vörn og fóru í hvassari nálgun á þeim enda vallarins. Breytti það stöðunni úr 18-21 í 18-25. Þróttur komst aldrei nálægt Selfossi eftir það og urðu lokatölur 26-33.

Leikurinn var að mestu leyti mjög vel leikinn hjá Selfossi. Sóknarleikurinn lengst af gekk afar vel og færslan á boltanum mögnuð enda var það gott samspil sem bjó til flest mörk liðsins. Varnarleikurinn aftur á móti var ekki nægilega góður nema á köflum í leiknum. Þar lentu okkar menn á eftir sem gerist yfirleitt ekki.