Sigur í uppgjöri toppliðanna

ÍR Selfoss
ÍR Selfoss

Selfoss lagði ÍR í toppbaráttunni í Grill 66 deild kvenna í kvöld.  Leikið var í Austurbergi og enduðu leikar 25-23.

Jafnræði var með liðunum í upphafi leiks en ÍR voru fyrri til að ná áhlaupi og leiddu um miðjan hálfleikinn með 3 mörkum.  Stelpurnar náðu þá að bæta aðeins í vörnina og komst Henriette í gang í markinu.  Það skilaði því að Selfyssingar leiddu í hálfleik 14-15.

Í seinni hálfleik héldu þær áfram á svipaðri braut án þess þó að ná að slíta sig frá ÍR.  Þegar 10 mínútur voru eftir af leiknum náði Selfoss loks að bæta í forystuna og leiddu með 5 mörkum þegar mest var.  ÍR-ingar gerðu áhlaup á síðustu tveim mínútunum, það var of lítið og of seint og sigur Selfoss staðreynd, 23-25.

Selfoss hefur þar með unnið alla 4 leiki sína og eru því á toppi deildarinnar.

Mörk Selfoss: Tinna Sigurrós Traustadóttir 7, Hulda Dís Þrastardóttir 5/5, Agnes Sigurðardóttir 4, Katla María Magnúsdóttir 4, Rakel Guðjónsdóttir 3, Katla Björg Ómarsdóttir 2.

Varin skot: Henriette Østergård 9 (29%)

Á laugardaginn er stórleikur hjá strákunum í EHF-keppninni gegn HK Malmö. Leikurinn hefst kl 18 en upphitun í Selinu og miðasala hefst kl 16.  Strákarnir eiga aftur heimaleik á miðvikudaginn gegn KA.  Stelpurnar eiga næst leik sunnudaginn 20. október þegar þær fá Fjölni í heimsókn í Hleðsluhöllina.


Góð vörn og flott markvarsla í seinni hálfleik kláraði leikinn.
Umf. Selfoss / ÁÞG