Strákarnir byrja Olísdeildina með sigri

fh selfoss -strákar fagna
fh selfoss -strákar fagna

Meistaraflokkur karla hóf leik í Olísdeildinni þennan veturinn í kvöld í stórleik fyrstu umferðar.  Þar mættu þeir FH sem spáð hefur verið góðu brautargengi í vetur.  Leiknum lauk með sterkum útisigri strákanna frá Selfossi, 30-32.

Þetta var hörkuleikur eins og oft vill verða þegar þessi lið eigast við og einkenndust fyrstu mínútur leiksins af mikilli baráttu, hraða og mistökum, mistökunum átti eftir að fækka en hraðinn minnkaði lítið.  Fyrstu 10 mínúturnar var allt jafnt en eftir það tóku Selfyssingar forustuna til sín og héldu 3-4 marka forustu og staðan í hálfleik 13-17.

Í síðari hálfleik breyttu FH-ingar áherslum í varnarleiknum og Selfyssingar áttu erfiðara með að koma boltanum í netið. FH jafnaði leikinn í 27-27 þegar 7 mínútur voru eftir.  Selfyssingar stigu þá upp með Hauk Þrastarson og sterka vörn að vopnum og stigu fá feilspor á lokamínútunum.  Sigur staðreynd, 30-32. 

Mörk Selfoss: Haukur Þrastarson 9, Guðni Ingvarsson 8, Hergeir Grímsson 4, Atli Ævar Ingólfsson 3, Árni Steinn Steinþórsson 3, Magnús Øder Einarsson 2, Alexander Már Egan 2, Guðjón Baldur Ómarsson 1.

Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson 10 (32%), Sölvi Ólafsson 6 (40%).

Nánar er fjallað um leikinn á Sunnlenska.is og Vísir.is og Mbl.is.

Eins og áður sagði hörku leikur og frábær handbolti sem bæði lið léku fyrir töluverðan fjölda áhorfenda í Kaplakrikanum í kvöld.  Þessi úrslit þýða að Selfoss er núþegar komið með 2 stig á töfluna og það á erfiðum útivelli.  Þrátt fyrir nokkur forföll vegna meiðsla, þá voru allir leikmenn í hóp búnir að fá einhverjar mínútur í fyrri hálfleik og um tíma var Haukur orðinn elstur í útilínu Selfoss.  Svo við vitnum í viðtal við Hauk eftir þennan leik: "Það verður áfram gam­an á Sel­fossi í vet­ur. Við sjá­um að við get­um ennþá eitt­hvað,“ sagði Hauk­ur." 

Næst á dagskrá er svo fyrsti leikur meistaraflokks kvenna í Grill 66 deildinni þegar þær mæta Val U í Hleðsluhöllinni á Sunnudagskvöldið kl. 19:30 og strákarnir leika svo sinn næsta leik í Olísdeildinni á mánudagskvöldið kl 19:30 þar sem þeir taka á móti ÍR í Hleðsluhöllinni.  Nóg framundan á heimavellinum okkar og auðvitað hvetjum við fólk til að halda áfram að fjölmenna á leiki.


Strákarnir voru að vonum sáttir með stigin tvö.
Umf. Selfoss / ÁÞG