Tap fyrir UMFA í meistaraflokki kvenna

Þrátt fyrir að bekkurinn hafi verið þunnskipaður þá byrjaði Selfoss mun betur og voru komnar í 11-7 þegar 20 mín. voru búnar hálfleiknum. Þá meiddist Thelma Sif og varð að koma útaf. Um leið og hún kom útaf þá voru þær ekki lengi að taka Hönnu úr umferð. Þar sem enginn útispilari var til staðar að þessu sinni þá varð sóknarleikurinn frekar vandræðalegur og Afturelding gekk á lagið og náði að jafna 12-12 sem voru svo hálfleikstölur.

Strax í upphafi síðari hálfleiks þá náði heimaliðið forustunni 13-15 og svo 14-18. Þá harkaði Thelma af sér og kom inná þótt hún væri meidd og það hjálpaði til munurinn minnkaði strax niður í 2 mörk og hélst hann til leiksloka en heimaliðið skoraði síðan síðasta markið í leiknum og unnu sanngjarnan sigur 28-25.

Hanna skoraði 7 mörk og flest þeirra áður en hún var tekin úr umferð. Hildur átti mjög góðan leik í sókn og hélt liðinu á floti á kafla í síðari hálfleik og skoraði alls 7 mörk. Thelma skoraði 5 mörk og aðeins 1 eftir að hún meiddist. Esther Halls átti frábæran leik og skoraði 4 mörk úr 4 skotum en þar sem hún er að koma til baka úr erfiðum ökklameiðslum þá gat hún bara spilað hluta leiksins. Guðrún Herborg og Gerður skoruðu 1 mark hvor. Gerður þurfti að spila sem skytta en það hefur hún aldrei gert áður og stóð sig bara með prýði. Ásdís varði 16 skot í markinu.

Stelpurnar eiga samt innbyrðisviðureignina á UMFA og verða því ofar í töflunni en þær og þess vegna var það mikilvægt að tapið yrði ekki stærra en 3 mörk. Það tókst við erfiðar aðstæður. Stelpurnar eiga nú 1 leik eftir í deildinni gegn Haukum á útivelli næsta sunnudag og svo verður úrslitakeppnin í lok mars.

Áfram Selfoss