Tökum stigið og höldum taplausir áfram!

Fjölmargt fólk lét sjá sig á JÁVERK-vellinum í kvöld þegar Selfoss og Fylkir mættust í toppslag Lengjudeildarinnar. Fyrir leikinn voru Selfyssingar taplausir.
Selfyssingar fengu þrjú afar góð færi í fyrri hálfleik til þess að skora en markvörður Fylkis bjargaði sínu liði. Fylkismenn komust yfir gegn gangi leiksins skömmu fyrir hálfleik þegar boltinn barst til hans eftir hornspyrnu. 0-1 eftir 45 mínútur.
Hálfleiksræða Dean Martin kveikti greinilega vel í okkar mönnum en Hrvoje Tokic jafnaði metin á 50. mínútu af vítapunktinum eftir að Gonzalo Zamorano hafði verið felldur innan teigs. Selfyssingar héldu gleðinni áfram og Gary Martin kom liðinu yfir örfáum mínútum síðar þegar hann vann boltann frábærlega af varnarmanni Fylkis og setti boltann í autt markið eftir að hafa farið framhjá markverði Fylkis einnig.
Aron Einarsson fékk skömmu síðar að líta sitt annað gula spjald og þar með rautt, um það bil hálftími var eftir af leiknum þegar það gerist. Fylkismenn þjörmuðu vel af Selfyssingum síðustu mínúturnar og uppskáru jöfnunarmark í uppbótartíma þegar boltinn endaði í netinu eftir klafs í teignum. Svekkjandi endir á annars mjög góðum leik.
Stigið þó gott þegar öllu er á botninn hvolft. Liðið er enn í toppsæti deildarinnar, taplaust. Næsti leikur liðsins er gegn Kórdrengjum í Safamýri á fimmtudag.
Þökkum öllum þeim fjölmörgu Selfyssingum sem mættu á völlinn fyrir komuna og vonandi sjáum við ykkur síðar í sumar!