UMFÍ | Frjálsíþróttaskólinn á Selfossi

Frjálsíþróttaskóli 2017 Viðurkenningar
Frjálsíþróttaskóli 2017 Viðurkenningar

Frjálsíþróttaskóli UMFÍ var haldinn á Selfossi dagana 11.-15. júní í frábæru veðri. Alls voru 62 frískir krakkar sem kláruðu skólann og var uppselt í skólann löngu áður en hann hófst. Skólinn er haldinn út um allt land og var þetta níunda starfsár skólans á HSK-svæðinu.

Frjálsíþróttaskólinn á Selfossi heppnaðist mjög vel og krakkarnir voru ánægðir með hann. Meiri hlutinn af krökkunum hefur komið áður í skólann. Að þessu sinni voru krakkarnir á aldrinum 11 til 14 ára. Flest börnin komu frá HSK svæðinu en einnig voru krakkar úr Hafnarfirði, Vík og Blöndósi.

Markmið skólans er að kynna og breiða út frjálsíþróttir á Íslandi og er dagskrá skólans mjög fjölbreytt. Skólinn gegnir mikilvægu hlutverki í að opna augu ungmenna fyrir ágæti íþróttaiðkunar og styðja fjölmargar rannsóknir þá fullyrðingu að ungmenni sem stunda íþróttir leiðast síður út í óreglu síðar á lífsleiðinni. Síðast en ekki síst öðlast ungmennin tækifæri til að kynnast hvert öðru og mynda tengslanet og auka hæfni sína í mannlegum samskiptum.

Frjálsíþróttaskólanum lauk með vel heppnuðu frjálsíþróttamóti á fimmtudeginum þar sem að nokkrir persónulegir sigrar unnust. Eftir grillveislu fengu krakkarnir viðurkenningaskjöl fyrir þátttöku í skólanum og kvöddust sátt og sæl eftir skemmtilega viku.

Frétt frá HSK og nánar er fjallað um skólann á vef Sunnlenska.is.

---

Ljósmyndir: HSK