Valorie verður spilandi þjálfari með Guðjón Bjarna til aðstoðar

Valorie O'Brien
Valorie O'Brien

Stjórn knattspyrnudeildar Selfoss hefur ákveðið að kalla Valorie O’Brien til baka úr láni frá HK/Víkingi og verður hún spilandi þjálfari Selfoss í Pepsi-deildinni út leiktíðina.

Valorie hefur leikið með HK/Víkingi í 1. deildinni í sumar auk þess að þjálfa Selfossliðið í Pepsi-deildinni.

Fjórir leikmenn meistaraflokks kvenna eru að fara til Bandaríkjanna í háskóla á næstu vikum og þess vegna var ákveðið að kalla Valorie til baka frá HK/Víkingi og nýta krafta hennar einnig innan vallar. Auk hennar munu fleiri leikmenn bætast í leikmannahópinn á næstu dögum.

Þeir leikmenn sem fara vestur um haf nú síðsumars eru þær Karitas Tómasdóttir, Hrafnhildur Hauksdóttir, Eva Lind Elíasdóttir og Erna Guðjónsdóttir.

Guðjón Bjarni Hálfdánarson, þjálfari meistaraflokks Árborgar í 4. deild karla, hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari Valorie og mun hann sinna því starfi í sumar, samhliða því að stýra Árborg og þjálfa 5. og 7. flokk karla hjá Selfoss.

---

Valorie O‘Brien reimar á sig skóna fyrir Selfyssinga
Ljósmynd: Umf. Selfoss/GJ