3. flokkur A á Vormóti
Nú er keppnistímabili allra flokka lokið en síðasta mót á tímabilinu var vormót yngri flokka sem fór fram á Akranesi 23. - 25. maí.
Selfoss átti þar 4 lið, tvö lið í 3. flokki stúlkna og tvö lið í 2. flokki, annað í stúlknaliði og hitt í flokki blandaðra liða.
Í 3. flokki var annað lið Selfoss að keppa í A-deild og hitt liðið í B-deild. Þessi tvö lið æfa saman og er skipt í tvö lið fyrir hvert mót. Liðunum er raðað í deildir á fyrsta móti vetrarins og haldast þar allan veturinn.
Í A-deildinni átti lið Selfoss flottan dag, þær lentu í 2. sæti á dýnu og trampólíni og 3. sæti á gólfi. Heildarstig skiluðu þeim 3. sætinu samanlagt.
Í B-deildinni átti lið Selfoss sömuleiðis góðan dag og þær enduðu þar samanlagt í 7. sæti.
Liðin eiga það sameiginlegt að hafa verið í miklum framförum í vetur og náð að byggja upp flottar æfingar. Þær eru metnaðarfullar og duglegar og virkilega skemmtilegt að fylgjast með þeim skila flottum og vel æfðum æfingum.

Liðin okkar í 2. flokki kepptu í sama hluta, en þar voru saman komin 5 stúlknalið og 4 blönduð lið í keppni.
Liðin okkar áttu virkilega flott mót og fékk stúlknaliðið meðal annars lendingarbónus á dýnu sem er alltaf skemmtilegt, en sá bónus er gefinn ef að allir keppendur lenda öll stökkin sín án móttöku. Á hinum áhöldunum voru liðin líka virkilega flott og enn sem áður skein af keppendunum smitandi leikgleði.
Blandaða liðið endaði í 1. sæti og vann öll áhöld, stúlknaliðið lenti í 2. sæti samanlegt en voru í 1. sæti á dýnu og trampólíni.
Virkilega flott uppskera hjá þessu krökkum sem hafa lagt sig öll fram í vetur.

Kynnir mótsins hafði orð á hversu góður stuðningur var í stúkunni og sagði "Það er tvennt sem er hægt að treysta á í þessu lífi, það eru skattar og stuðningur foreldranna frá Selfossi". Við erum svo sannarlega sammála því og erum stolt af því hvað við eigum öflugan og góðan foreldrahóp - takk fyrir allan stuðninginn í vetur, það er ómetanlegt fyrir keppendur og þjálfara að finna!
Fimleikadeild Selfoss er í samstarfi við Íslandsbanka, Hótel Geysi, Bílverk BÁ og HSH þrif og flutninga