3. flokkur lauk deildarkeppninni með sigri

3. flokkur karla fór í krefjandi verkefni á miðvikudag. Liðið mætti Aftureldingu á útivelli í leik þar sem baráttan var um sæti í úrslitakeppni. Selfoss sigraði leikinn 25-28 og eru strákarnir taplausir í rúman mánuð.

Jafnt var upp í 9-9 og enduðu Selfyssingar þá hálfleikinn betur. Liðið gerði 6 mörk gegn 2 frá heimamönnum og staðan 11-15 yfir í hálfleik. Í upphafi seinni hálfleiks kom Selfoss sér í afar góða stöðu 12-20 og nánast búið að gera út um leikinn. Heimamenn minnkuðu þó muninn niður í þrjú mörk 23-26 en komust aldrei nær en það. 3ja marka sigur Selfoss staðreynd.

Mjög vel útfærður sóknarleikur hafði mikið að segja að þessu sinni. Liðið hefur náð að bæta sóknarleik sinn mikið og búið saman til árángursríkan sóknarleik sem virkar. Varnarlega var liðið gott, sér í lagi undir lok fyrri hálfleiks og í byrjun síðari hálfleiks þegar Selfoss náði 11-3 kafla. Markvarslan fylgdi í kjölfarið.

Selfyssingar þá komnir í úrslitakeppnina og liggur ekki fyrir hvort liðið endar í 5. eða 6. sæti. Með einu stigi fleira hefði liðið getað náð fjórða sætinu. Slæm úrslit í byrjun tímabils, þá sérstaklega á heimavelli, eru liðinu þung núna og kostuðu það að liðið er ekki ofar. Hins vegar hefur spilamennska strákanna tekið miklum framförum og seinustu mánuðina hefur liðið leikið mjög vel. Gaman verður að sjá hvort liðið nái svo að bíta frá sér í úrslitakeppninni.