Ályktun aðalfundar handknattleiksdeildar Umf. Selfoss

Selfoss_merki_nytt
Selfoss_merki_nytt

Aðalfundur handknattleiksdeildar Ungmennafélags Selfoss, haldinn í Tíbrá 31. mars 2016, skorar á aðalstjórn Ungmennafélags Selfoss og bæjarstjórn Árborgar að beita sér fyrir því að nemendur í handboltaakademíu Umf. Selfoss og Fjölbrautaskóla Suðurlands fái að stunda nám sitt, þ.e. handboltaæfingar, í Iðu, íþróttahúsi skólans, með þeim búnaði sem með þarf og sitja þannig við sama borð og nemendur annarra íþróttaakademía sem starfræktar eru við skólann.

Greinargerð

Handboltaakademían var stofnuð árið 2006 með samstarfssamningi handknattleiksdeildar Umf. Selfoss, Sveitarfélagsins Árborgar og FSu. Frá upphafi hafa skólastjórnendur FSu meinað nemendum akademíunnar að æfa í Iðu. Rök skólastjórnenda eru þau að ekki megi nota harpix í húsinu en harpix er viðurkenndur og sjálfsagður hlutur af búnaði handknattleiksiðkenda um heim allan. Athygli vekur að Iða er, að því best er vitað, eina íþróttahús landsins þar sem ekki er heimilt að nota harpix. Hafa ber í huga að harpix það sem notað er í dag er þægilegt að þrífa enda séu notuð einhver af þeim fjölmörgu hreinsiefnum og tækjum sem nú bjóðast.

Mismunun sú sem þetta felur í sér gagnvart nemendum íþróttaakademía við FSu er með öllu óásættanleg og verður að leiðrétta tafarlaust.