Dagný og Gunnar Borgþórsson
Knattspyrnukonan Dagný Brynjarsdóttir frá Hellu skrifaði á laugardag undir samning við knattspyrnudeild Umf. Selfoss og spilar með spila með félaginu í Pepsi deildinni keppnistímabilið 2014.
Dagný er landsliðskona sem hefur farið vaxandi undanfarin misseri og skoraði m.a. sigurmark Íslendinga gegn Hollandi á Evrópumótinu í sumar sem tryggði Íslandi sæti í átta liða úrslitum keppninnar.
Eins og áður sagði er Dagný frá Hellu og því má segja að hún sé komin heim á Suðurlandið en Dagný stundaði einnig nám við Fjölbrautaskóla Suðurlands samhliða því að vera í knattspyrnuakademíunni. Þar hitti Dagný fyrir núverandi þjálfara sinn Gunnar Borgþórsson en Gunnar þjálfaði hana einnig hjá Val árið 2011 og 2012 og urðu þau m.a. bikarmeistarar með liðinu.
Aðspurður segist Gunnar hafa haft auga með Dagnýu lengi „Dagný er leikmaður sem allir vilja hafa í sínu liði, hún er frábær karakter, drífandi í öllu sem hún gerir og er í fótboltanum til að ná langt.“
Framtíðaráform Dagnýjar eru að útskrifast úr Florida State University jólin 2014 og halda svo út í atvinnumennsku í janúar 2015. Draumur hennar er að komast í lið í Þýskalandi. Spurð út í ákvörðun sína að ganga til liðs við Selfoss sagði Dagný „Gunni hefur þjálfað mig bæði í knattspyrnuakademíu FSu og í Val svo ég þekki hann vel. Hann er æfingasjúkur svo það hentar mér virkilega vel og ég held að hjá honum geti ég bætt mig mikið sem einstaklingur. Selfoss liðið er mjög ungt og spennandi og hefur verið að vaxa undanfarin ár. Ég hef trú á að ég geti hjálpað ungu leikmönnunum að taka næsta skref með minni reynslu og hjálpað liðinu að verða betra. Það er einnig mjög spennandi að fá tækifæri á að spila með KFR stelpunum sem voru ennþá litlar þegar við spiluðum seinast fyrir sama félag. Það er einnig stór plús að fá að búa aftur heima hjá fjölskyldunni en ég hef ekki gert það síðan sumarið 2006.“
Að sögn Dagnýjar er Florida State einn besti íþróttaháskólinn í Bandaríkjunum. „Fótbolta prógramið þarna er örugglega eitt það besta sem leikmaður getur komist í. Með frábærri aðstöðu og góðu veðri þá hef ég tækifæri á hverjum degi til að bæta mig sem einstaklingur. Við erum með frábært þjálfarateymi sem vilja bæta einstaklinginn sem og liðsheildina. Ég fæ topp leikgreiningu eftir alla leiki og sumar æfingar ef þess þarf og það hefur hjálpað mér mikið við að bæta leikskilninginn minn og ákvarðanatöku. Ég myndi segja að þetta væri draumur hvers íþróttamanns sem hefur áhuga á að æfa mikið og viljann til þess að bæta sig. Ég er mjög ánægð að hafa ákveðið að fara þangað í skóla því ég hef lagað og bætt veikleika mína síðan ég byrjað þarna sem og fengið meira sjálftraust og styrkst andlega og ég veit að eftir útskrift þá verð eg tilbúin í atvinnumenskuna“ sagði Dagný að lokum.
Sagt er frá samningi Dagnýjar á vef Sunnlenska.is auk þess sem þar má finna viðtal við hana að lokinni undirskrift.