Eitt landsmet og sex HSK met

Frjálsar - Bikar 15 ára og yngri
Frjálsar - Bikar 15 ára og yngri

Á sunnudaginn var bikarkeppni 15 ára og yngri haldin í Kaplakrika í Hafnarfirði. HSK/Selfoss sendi tvö lið til keppni, 14 manna A-lið og 15 manna B-lið keppenda fædda 2002-2001 enda erum við með breiðan hóp keppenda á þessum aldri.

A-liðið hlaut 111,5 stig og endaði í þriðja sæti heildarstigakeppninnar, eftir mikla spennu í síðustu greinunum, aðeins 1 ½ stigi á eftir UFA og 9 stigum á eftir sigurliði ÍR. B-liðið okkar endaði í fimmta sæti, 4 stigum á eftir FH.

Piltaliðin okkar urðu í 2. og 4. sæti og stúlknaliðin í 3. og 5. sæti. Árangurinn er frábær, ekki síst vegna þess hve liðið er ungt en flestir í liðinu eiga eitt ár eftir í flokknum.

Í einstaklingsgreinum urðum við þrisvar í fyrsta sæti. Kolbeinn Loftsson sigraði í hástökki með 1,66 m, Sindri Ingvarsson í kúluvarpi með 12,23 m og Ragnheiður Guðjónsdóttir í kúluvarpi með 11,36 m.

Hákon Birkir Grétarsson setti landsmet í 60 m grind í flokki 14 ára er hann hlóp á 8,93 sek og er það um leið HSK met í flokki 14 ára.

Fimm HSK met til viðbótar voru bætt á mótinu.

Dagur Fannar Einarsson bætti eigið met í 14 og 15 ára flokki í 400 m hlaupi á 58,14 sek en Jónas Grétarsson hljóp einnig undir gamla metinu á 59,67 sek. Heiðar Óli Guðmundsson setti met í 14 ára flokki í 1500 m hlaupi á 4:58,88 mín og svo setti piltasveitin met í 4x200 m hlaupi á 1:46,83 mín. Bríet Bragadóttir setti met í 14 ára flokki í 400 m hlaupi á 64,59 sek. Valgerður Einarsdóttir setti met í 14 ára flokki í 1500 m hlaupi á 5:32,94 mín.

Öll úrslit mótsins má finna á Þór, mótaforriti FRÍ.

þi

---

Óskum glæsilegum hópi HSK/Selfoss til hamingju með frábæran árangur.
Ljósmynd: Umf. Selfoss/Þuríður Ingvarsdóttir

Frjálsar - Bikar 15 ára og yngri Frjálsar - Bikar 15 ára og yngri II