Fjóla Signý og Kristinn Þór frjálsíþróttafólk HSK/Selfoss

Frjálsíþróttafólk á HSK-svæðinu hélt sitt árlega lokahóf í Tíbrá á Selfossi laugardagskvöldið 22. september sl. Þar var keppnistímabilið 2012 gert upp í máli, myndum, viðurkenningum, hlátrasköllum og hitaeiningum. Um 30 manns mættu á lokahófið. Margt var á dagskrá bæði gaman og alvara. Byrjað var á að horfa á myndbönd sem félagar í hópnum höfðu útbúið, svona til að fá húmorinn og andann í gang. Því næsta var annáll ársins fluttur þar sem verkefnisstjóri frjálsíþróttaráðs HSK fór yfir viðburðaríkt ár.

Í ljós kom að sett höfðu verið 96 HSK-met utanhúss á árinu og 17 met innanhúss eða alls 113 HSK-met, miðað við 104 í fyrra. Íslandsmetin urðu 17 talsins og var Styrmir Dan Steinunnarson, Þór í Þorlákshöfn, 13 ára, með flest met eða 7, í langstökki, hástökki, spjótkasti, kringlukasti og 300 m grindahlaupi, allt í hans flokki. Guðbjörg Hulda Sigurjónsdóttir, Suðra, setti 5 met, í spjótkasti, kringlukasti og kúluvarpi. Halla María Magnúsdóttir, Selfoss, 13 ára setti 4 met, í spjótkasti og kúluvarpi í sínum flokki og Sigþór Helgason, Selfossi, 15 ára með eitt met þegar hann kastaði rúma 56 metra með karlaspjótinu á Vormóti HSK sem er met í hans flokki. Íslandsmeistara-, bikar- og landmótsmeistaratitlar urðu um 90 talsins, silfurverðlaun á sömu mótum voru rúmlega 60 og bronsverðlaun rúmlega 50.

HSK-liðin í öllum aldurflokkum tóku yfirleitt þriðja sætið í heildarstigakeppnum þessara móta nema í bikarkeppnunum, en þá varð HSK í 4. sæti, bæði í eldri og yngri flokki. Önnur mót voru fjölmörg á árinu, svo sem eins og öll vormótin, mótaraðamót FRÍ, Gautaborgarleikarnir, Goggi Galvaski, Gaflarinn, ýmis bætingamót erlendis, sem okkar besta fólk fór á, ásamt smærri bætingamótum. Keppendur HSK stóðu sig á heildina litið frábærlega á þessum mótum þar sem fullt af persónulegum bætingum, HSK-metum og Íslandsmetum voru sett. Þess má geta að Hreinn Heiðar Jóhannsson, Laugdæl-um, sigraði í stökkflokki í mótaröð FRÍ í sumar, sem samanstóð af 6 mótum. Nokkrar viðurkenningar voru veittar. Fyrst skal telja viðurkenningu fyrir bestu mætingu á samæfingar HSK í yngri og eldri flokki. Í yngri flokki voru það Styrmir Dan Steinunnarson, Þór, og Harpa Svansdóttir, Selfossi, sem mættu á best eða á þær allar en þær voru 10 talsins. Í eldri flokki voru það Baldvin Ari Eiríksson og Ágústa Tryggvadóttir bæði frá Selfossi sem mættu best eða á 6 af 8 æfingum. 

Hápunkturinn var svo útnefning á frjálsíþróttakarli og konu ársins að mati þjálfara. Frjálsíþróttakarl ársins var valinn Kristinn Þór Kristinsson, Samhygð.
Kristinn var ósigrandi í sinni aðalgrein 800 m hlaupi í sumar. Hann varð Íslands- og bikarmeistari með miklum yfirburðum ásamt því að verða bikarmeistari í 1500 m hlaupi einnig. Kristinn fór erlendis í ágúst og keppti þar á tveim sterkum mótum í 800 m hlaupi og rauf í fysta sinn 1:54 mínútna múrinn er hann hljóp á 1:53,77 mín. Þá bætti Kristinn sinn persónulega árangur í 400 m hlaupi á árinu er hann hljóp á 50,76 sek, en hann átti áður 51,22 sek. Það má því með sanni segja að Kristinn Þór sé millivegalengdakóngur ársins 2012.
Það þarf engum að koma á óvart að Fjóla Signý Hannesdóttir, Selfossi, var valin frjálsíþróttakona ársins 2012. Fjóla hefur verið í frábæru formi á árinu og óx með hverjum deginum. Hún varð Íslandsmeistari í bæði 100 og 400 metra grindahlaupum auk þess að verða Íslandsmeistari í hástökki innan og utanhúss sem og bikarmeistari innahúss. Það má því með sanni segja að Fjóla sé grindahlaupsdrottning Íslands árið 2012. Fjóla vann svo til fjölda gull,- silfur- og bronsverðlauna á mótum sumarsins. Fjóla kom sérstaklega sterk inn seinnihluta sumars og skal minnst á HSK-met hennar í 200 m hlaupi en þar bætti hún áratuga gamalt met Unnar Stefánsdóttur, Samhygð, er hún hljóp á 25,54 sek. sem hún bætti svo í byrjun september er hún hljóp á 25,51 sek á sænska meistaramótinu í sjöþraut. Á því móti bætti Fjóla sig um tæp 400 stig er hún náði 5041 stigi sem er 9. besti árangur Íslendings í greininni frá upphafi. Til viðbótar þessu þá setti Fjóla 5 HSK-met.
Fjóla og Kristinn eru þungavigtarfólk í HSK liðinu. Við óskum þeim til hamingju með útnefninguna. Eins og áður segir voru sett 113 HSK-met árinu sem er met. Flest met setti Halla María Mangúsdóttir, Selfossi, 13 ára, eða 34 met. Næstflest met setti Styrmir Dan Steinunnarson, Þór, eða 19. Mikill einhugur er um að æfa vel í vetur og stefna á góða hluti á Landsmóti UMFÍ á Selfossi 2013. Að end-ingu voru veittar viðurkenningar á gamansömu nótunum og bar þar einna hæst þegar Dagur Fannar Mangússon fékk viðurkenningu fyrir að keppa í stangarstökki á árinu.  

Ólafur Guðmundsson