Fjölmennt Þorramót í fimleikum

Fimleikadeild Selfoss hélt um helgina Þorramót í hópfimleikum í 5. flokki landsreglna fyrir yngri kynslóðina og þá sem eru að stíga sín fyrstu spor í keppni. Þátttaka fór fram úr björtustu vonum. Níu lið mættu til keppni í yngri flokki og fimm í eldri. Í yngri flokknum fengu liðin viðurkenningu fyrir sitt besta áhald. Í eldri flokknum voru veitt verðlaun og viðurkenningar. Mótið fór fram í Baulu og fór keppnin vel fram þó þröngt væri.

Keppendur komu frá Aftureldingu, Gróttu, UMFH, Þór, Keflavík, Stokkseyri og Selfossi. Þarna mátti sjá fimleikafólk framtíðarinnar framkvæma æfingar sínar með bros á vör og verður gaman að fylgjast með þessum krökkum í framtíðinni.