Fyrstu stigin í höfn

Byrjunarlið Selfoss gegn HKVíkingi 2019
Byrjunarlið Selfoss gegn HKVíkingi 2019

Selfoss náði í sín fyrstu stig í Pepsi Max deild kvenna í knattspyrnu í kvöld þegar liðið sótti HK/Víking heim í Kórinn í Kópavogi. Lokatölur urðu 0-1 en Grace Rapp skoraði eina mark leiksins.

Selfoss hafði yfirhöndina í fyrri hálfleik en bæði lið áttu álitlegar sóknir. Selfoss var þó nær því að skora en bæði Magdalena Reimus og Darian Powell fengu frábær færi en inn vildi boltinn ekki. Staðan var 0-0 í hálfleik.

Selfoss byrjaði seinni hálfleikinn af miklum krafti og færin komu áfram á færi-bandi á upphafsmínútunum en inn vildi boltinn ekki. Magdalena átti aukaspyrnu í þverslána á 54. mínútu og á 63. mínútu átti Grace hörkuskot sem sömuleiðis fór í þverslána. 

Það var svo loksins á 80. mínútu að Barbára tók frábæran sprett upp hægri kantinn og klobbaði leikmann HK/Víkings áður en hún sendi boltann hárfínt fyrir markið á Grace sem skoraði með þrumuskoti af stuttu færi.

Anna María Bergþórsdóttir og Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir fengu góð færi á lokakaflanum en HK/Víkingur hefði allt eins getað jafnað. Þær áttu stangarskot á 88. mínútu og dauðafæri í uppbótartíma sem Kelsey Wys varði.

Selfoss er nú í 8. sæti deildarinnar með 3 stig og leikur gegn Keflavík á Selfossvelli á þriðjudaginn í næstu viku.

Lið Selfoss: Mark: Kelsey Wys. Vörn: Barbára Sól Gísladóttir, Brynja Valgeirsdóttir, Cassie Boren, Anna María Friðgeirsdóttir. Miðja: Unnur Dóra Bergsdóttir (Bergrós Ásgeirsdóttir 32.), Þóra Jónsdóttir (Halla Helgadóttir 70.), Grace Rapp, Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir, Magdalena Anna Reimus. Sókn: Darian Powell (Anna María Bergþórsdóttir 84.).

Ónotaðir varamenn: Friðný Fjóla Jónsdóttir (M), Ásta Sól Stefánsdóttir, Halldóra Birta Sigfúsdóttir, Hólmfríður Magnúsdóttir.

 

Fjallað var um leikinn á sunnlenska.is, mbl.is og fotbolti.net.