Gekk ekki hjá 4. flokki

Selfoss náði ekki að tryggja sér bikarmeistaratitil í gær í 4. flokki. Liðið mætti FH-ingum sem voru beittari framan af og komust í 0-4. Kom þá öflugur kafli hjá okkar mönnum sem komust 5-4 yfir. Jafnræði var með liðunum það sem eftir var fyrri hálfleiks. Þegar 40 sekúndur voru eftir var jafnt 10-10. Klára FH-ingar þennan lokahluta með því að skora tvö mörk og 10-12 yfir í hálfleik.

Lítið gekk hjá Selfyssingum í síðari hálfleik. FH komst í fjögurra marka forskot og fékk Selfoss þá fjölda tækifæra til að koma sér aftur inn í leikinn. Þeir náðu ekki að nýta sér þau og FH fór fram úr Selfoss. Lokatölur urðu 18-27 fyrir Hafnfirðinga.

Frammistaðan í fyrri hálfleik var góð og hafði það nokkuð að segja að liðið hélt ekki jöfnu í hálfleik eins og allt útlit var fyrir rétt fyrir leikhlé. Hugsanlega hefði jöfn staða í hálfleik breytt nokkru fyrir síðari hálfleikinn. Annars var það fyrst og fremst slakur sóknarleikur í síðari hálfleik varð liðinu að falli en þar voru alltof fáir leikmenn tilbúnir að taka af skarið. Framan af náði liðið að hreyfa vörn FH nokkuð vel og sköpuðu sér oft fín færi en eftir hlé hins vegar vantaði allt bit í leikmenn liðsins.

Richard Sæþór Sigurðsson átti frábæran leik fyrir Selfoss en auk hans var það nær eingöngu Ómar Ingi sem var að taka almennilega af skarið en hann dróg mikið til sín og bjó til opnanir. Varnarleikurinn var góður í fyrri hálfleiknum en gaf eftir í síðari hálfleik. Bjarki Már skilaði góðri frammistöðu í markinu og var með 41% markvörslu.

Þetta var niðurstaðan að þessu sinni en strákarnir mættu góðu FH liði sem var sterkara þennan daginn. Nú reynir á fyrir strákana að læra af þessu og koma ákveðnari, klókari og reynslunni ríkari í næstu tilraun. Það er það sem skiptir máli.

Áfram Selfoss