Grótta tók bæði stigin

Alexander Egan
Alexander Egan

Selfoss tók á móti liði Gróttu á föstudaginn í spennandi og skemmtilegum leik. Fyrri hálfleikurinn var jafn og spennandi og staðan 13-13 í hálfleik. Í seinni hálfleik var Grótta sterkari aðilinn og hélt tveggja til þriggja marka forystu lengst af. Selfyssingar gáfu þó full mikið eftir í restina og sigraði Grótta 20-26 sem er of mikill munur miðað við gang leiksins. Selfoss var að spila ágætis vörn og markvörslu en sóknarleikurinn var stirður á köflum og leikmenn voru ekki að nýta færin sín nægilega vel. Það er margt jákvætt sem má taka úr þessum leik og greinilegur stígandi í liðinu en margir leikmenn hafa verið að glíma við meiðsli í vetur. Flestir leikmenn eru heilir í dag og vonandi nær Selfoss að tefla fram sínu sterkasta liði þegar kemur að úrslitakeppninni í apríl og leikmenn síni klærnar eins og þeir gerðu í þessum leik.

Með þessu tapi hleyptu Selfyssingar liði Fjölnis upp að hlið sér í deildinni, bæði lið eru með 27 stig þegar tvær umferðir eru eftir en Selfoss heldur þriðja sætinu á betri markatölu.

Markahæstur í liði Selfoss var Alexander Már Egan með sex mörk. Sverrir Pálsson og Andri Már Sveinsson skoruðu fjögur mörk hvor, Hörður Másson þrjú mörk, Jóhann Erlingsson tvö og Hergeir Grímsson skoraði eitt.

Meðfylgjandi mynd tók Jóhannes Ásgeir Eiríksson af Alexander Már Egan sækja að marki Gróttu. Fleiri myndir er að finna hér á Facebook síðu handboltans.

Gestur Einarsson hjá Fimmeinn.is var á staðnum og má sjá nánari umfjöllun um leikinn hér. Einnig tók hann viðtal við Gunnar Gunnarson, þjálfara Selfoss eftir leik og Alexander Már, sem skoraði sex mörk í leiknum.