Heiðdís skrifar undir tveggja ára samning við Selfoss

Knattspyrna Heiðdís - GKS
Knattspyrna Heiðdís - GKS

Varnarmaðurinn Heiðdís Sigurjónsdóttir skrifaði í dag undir tveggja ára samning við Knattspyrnudeild Selfoss.

Heiðdís gekk til liðs við Selfoss frá Hetti fyrir ári síðan og var nýliði í Pepsí-deildinni í sumar. Hún var annar tveggja leikmanna Selfossliðsins sem spilaði hverja einustu mínútu fyrir Selfoss sem náði sínum besta árangri í sumar þegar liðið endaði í þriðja sæti deildarinnar og lék til úrslita á Laugardalsvelli í Borgunarbikar KSÍ þar sem nærri 2500 manns mættu á fjölmennasta leik kvennaliða á Íslandi. Þá var Heiðdís valin til æfinga með A-landsliði Íslands í haust sem undirstrikar þær framfarir sem hún hefur tekið hér á Selfossi.

„Við erum mjög ánægð með að Heiðdís hafi ákveðið að vera áfram á Selfossi. Hún er klárlega einn efnilegasti leikmaður landsins og því eðlilegt að mörg lið hafi verið að bjóða henni samning" sagði Gunnar Borgþórsson yfirþjálfari Selfoss þegar samningurinn var undirritaður í dag. Hann bætti við að Heiðdís hafi bætt sig mikið sem leikmaður á sínu fyrsta tímabili og verður gaman að sjá hana taka næsta skref með liðinu.

„Mér líkaði mjög vel a Selfossi þetta árið og bætti mig heilmikið sem leikmaður" bætti Heiðdís við. „Ég vil halda því áfram og veit að á Selfossi fæ ég alla þá hjálp sem ég þarf til þess. Stelpurnar í liðinu, allir stjórnarmenn og fólkið í kringum liðið eru lika algjörir snillingar. Svo erum við með bestu stuðningsmenn landsins sem hefur gríðarlega mikið að segja og hvetur mann til dáða í blíðu og stríðu"

Það er Selfyssingum afar mikilvægt að hafa náð samkomulagi við Heiðdísi þannig að hún nái að þroskast og dafna sem leikmaður við bestu aðstæður hér á Selfossi. Hún sýnir liðinu mikla hollustu með því að semja til tveggja ára og endurgeldur það traust sem hún hlaut á seinasta keppnistímabili.

Þess má geta að Selfoss hefur þegar samið við Chante Sandiford, einn besta markmann sem komið hefur til landsins, og ameríska leikmanninn Alyssu Telang sem kemur til með að styrkja liðið mikið á komandi keppnistímabili í Pepsí-deildinni. Selfoss liðið ætlar sér stóra hluti á komandi tímabili og byggja ofan á þann frábæra árangur sem liðið hefur náð á undanförnum árum.

---

Á myndinni er Heiðdís í einum af þremur leikjum Selfoss gegn Val á seinasta tímabili en Selfoss sigraði alla leiki sína gegn Val og sló þær m.a. annars út í undanúrslitum Borgunarbikarsins.
Ljósmynd: Sunnlenska.is/Guðmundur Karl